Okkur langaði að segja ykkur aðeins hvernig gengur hjá honum Þorvaldi sem við ættleiddum haustið 2003. Hann var þá rétt um 8 mánaða og hafði búið á Kattholti síðan hann fannst fótbrotinn við Bláfjallaafleggjara.

 

Hann þurfti að fá stálpinna í löppina sína og heitir einmitt Þorvaldur eftir dýralækninum sem hjúkraði honum. Við féllum alveg fyrir honum því hann hefur alltaf verið svo ljúfur og góður og malar og malar allan daginn.

Þorvaldur bjó fyrsta árið í Vesturbænum og eignaðist eftir 6 mánuði lítinn bróður sem heitir Lúkas (hann var með svo stórar loppur þegar hann var lítill).

 

Lúkas er svona gulur eins og Þorvaldur og gætu þeir því verið bræður í alvörunni. Þorvaldur varð voða afbrýðissamur þegar Lúkas kom á heimilið fyrst og breyttist mjög mikið. Honum þykir samt voða vænt um litla bróðir og passar hann voða vel. Þeir kúra saman allan daginn og Lúkas hermir allt eftir stóra bróður sínum.

Þorvaldur og Lúkas fluttu í Kópavoginn fyrir 3 árum síðan og eru núna 4 og 5 ára. Þorvaldur er vinsælasti kisinn í hverfinu og er duglegur að “standa vörð” um hverfið og heilsa öllum sem koma í götuna.

 

Hann situr yfirleitt með fótinn beinann eins og staurfót út af pinnanum í löppinni og litli bróðir hermir stundum eftir því. Hann er líka mjög duglegur að snýkja mat hjá nágrönnunum sem falla yfirleitt fyrir sjarmatröllinu. Það er nú farið að sjást aðeins á honum hvað hann er “duglegur” að borða, en við eigendurnir segjum bara að hann sé stórbeinóttur.

Þorvaldur er einstaklega gáfaður kisi. Hann fer nú inn og út um litla kisuhurð og lærði á hana strax í byrjun. Hann kann einnig að opna venjulegar mannahurðar og reynir það oft með því að standa á afturlöppunum og reynir að ná í húninn. Hann er líka einstaklega minnugur og veit nákvæmlega hvar uppáhalds maturinn hans er geymdur.

Þorvaldur og Lúkas fengu einu sinni að gista í 3 vikur í Kattholti meðan eigendurnir voru erlendis. Þorvaldur var greinilega ekki búin að gleyma neinu enda æddi hann út um allt þegar hann kom og malaði og malaði og var ekkert hræddur eins og bróðir sinn. Hann hugsar örugglega oft til vina sinna á Kattholti.

Við erum rosalega hamingjusöm með hann Þorvald okkar og hann er sá besti kisi sem hægt er að hugsa sér. Takk kærlega fyrir okkur.
Pálína og Þórður

 

Skýrslan um Þorvald.

 

Þorvaldur lá í vegkantinum við afleggjarann upp í Bláfjöll þegar athugull bílstjóri gerði viðvart. Hann var fluttur á Dýraspítalann í Víðidal og reyndist fótbrotinn á afturfæti.Kom í Kattholt í spelkum þann 30.Apríl 2003 og hefur tekið mjög góðum framförum.  Geltur, eyrnamerktur og bólusettur.

 

Elsku Þorvaldur minn. Ég gleymi þér aldrei.

 

Sigga.