Þakkir til velunnara Kattholts

3 júl, 2011

 

Laugardaginn 2.júlí hélt Kattavinafélag Íslands upp á 35 ára afmæli sitt og Kattholt upp á 20 ára afmæli.

 

Við teljum að yfir 200 gestir hafi heimsótt okkur á þessum degi, fært kisunum mat að gjöf, blautmat, þurrmat og fisk, verslað vel á markaðnum okkar og gætt sér á tertum og brauði í boði þriggja bakaría og gosdrykkja frá Vífilfelli og Ölgerðinni ásamt ávaxtasafa frá Vífilfelli og kaffi.

 

Margir gáfu í söfnunarbauka okkar og við fengum inn nýja félagsmenn, en eins og kattavinum er kunnugt stendur Kattholt mjög illa, þar sem það fær hvorki styrki frá ríki né borg og er reksturinn algjörlega undir því kominn að við fáum nóg af félagsmönnum.

 

Árgjaldið eru kr. 3.245.- (með seðilgjaldi) og til að við getum rekið Kattholt áfram í óbreyttri – og betri –  mynd þurfum við að þrefalda félagsmannafjöldann. Við hvetjum því hvern og einn félagsmann að fá í lið með sér 3 vini sem eru tilbúnir að leggja sínar lóðar á vogarskálarnar!

 

Við vonum að sem flestir velunnarar katta skrái sig sem félagsmenn á heimasíðunni okkar www.kattholt.is og þeir sem enn skulda félagsgjöld fyrri ára eru vinsamlega beðnir að gera skil sem fyrst.

Við þökkum öllum þeim sem glöddu okkur á þessum degi og sýndu með komu sinni vináttu sína í garð kisa.

f.h. Kattavinafélags Íslands
Anna Kristine Magnúsdóttir, formaður.