Þakkir fyrir Dúllu okkar – Kæra starfsfólk Kattholts

21 ágú, 2012


Það var í ágústmánuði 1998 sem við fjölskyldan lögðum leið okkar í Kattholt í þeim tilgangi að fá okkur kisu og það var ekki vandfundið.  Hún Dúlla fékk strax nafn í bílnum á leiðinni heim.


Ekki var vitað nákvæmlega hvað hún væri gömul, sennilega fædd í maí 1998 og ekki hvaðan hún kom.  Þessi elska lést 8. ágúst s.l. 14 ára gömul.  Hún hafði farið í fyrravor í aðgerð hjá Helgu Finnsdóttur dýralækni vegna æxla á kviði, stór og erfið aðgerð fyrir Dúllu litlu, en þessi æxli komu aftur og enn verri og var ekkert annað hægt að gera fyrir hana, þar sem hún var farin að reyna sjálf að losna við þennan óþverra. Helga dýralæknir hjálpaði henni að sofna svefninum langa.  Var hún jörðuð í garðinum okkar í Lálandi í sérstökum kassa með kodda, sem ég saumaði fyrir hana, dóti og mynd af sér með kveðju frá okkur fjölskyldunni.


Dúlla var alltaf smávaxin kisa, svört og hvít, fjölskylduvæn og kelin, en ekki mikið fyrir ókunnuga.  Hún fór út á hverjum degi og yfirleitt gekk hún alltaf sömu leið, yfir garða nágrannana  og sennilega gert sínar þarfir þar.  Margir í hverfinu þekktu hana Dúllu.  Hún var líka fuglaveiðari, því var nú verr, sama hversu margar bjöllur voru um háls hennar.  Og oft kom hún með lifandi hagamýs inn í hús og þá vorum við fjölskyldan á veiðum til að koma þeim lifandi niður í Fossvogsdal.  Dúlla eignaðist aldrei kettlinga, hún var fyrstu árin á pillunni og síðan tekin úr sambandi.  Árið 2004 bættist við annað dýr á heimilið, en það er cavaliertíkin Tíbrá og urðu þau bestu vinir.


Dúlla var oft í pössun í Kattholti, þegar fjölskyldan fór í frí.  Við þökkum ykkur kærlega fyrir góða pössun, en hún var alltaf jafnánægð að koma heim og mjálmaði með kvörtunartón.
Þetta sumar í ár var gott hjá Dúllu, fyrir utan krabbann, hún var mikið úti, enda veðrið einstaklega gott, svaf undir trjánum okkar.  Hún fór ekkert út úr garðinum síðustu vikurnar, vildi bara vera hjá okkur.  Hún hafði góða matarlyst og var meira segja búin að læra ýmislegt af hundinum, hvernig átti að sníkja mat.  Síðustu dagana fékk hún rækjur og túnfisk í hverja máltíð. 
Það var erfið ákvörðun að láta hana fara, en það var henni fyrir bestu, ekki mátti draga þetta mikið lengur.   Við söknum hennar sárt.


Sendum ykkur mynd af Dúllu, sem tekin var nokkrum dögum fyrir andlát hennar (ekki  hægt að sjá að hún sé veik).  Og mynd af rúminu sem hún var jörðuð í.


Hver veit, kannski einhvern tímann seinna fáum við okkur aðra Dúllu.  Nóg er af kisum sem vantar heimili, það sést á heimasíðu ykkar.  Yngsta dóttir mín sem var 16 ára í gær er alveg veik, langar svo í aðra kisu, hún man ekki annað en að kisa búi á heimili okkar.