Starf Kattavinafélagsins í þágu samfélagsins

Grein skrifuð á upphafsárum starfsemi Kattholts

Með tilkomu Kattholts hefur aðstaðan fyrir óskilaketti batnað verulega hér á höfuðborgarsvæðinu. Kattavinafélagið hefur unnið mjög gott starf og almenningur sem og lögregla, dýraeftirlitsmenn og fleiri hafa getað leitað á náðir félagsins með ketti sem það finnur á vergangi. Kattavinafélagið hefur einnig haldið skrár yfir heimilisketti sem fólk hefur týnt eða fundið og hefur með Þessum hætti aðstoðað margan köttinn við að rata heim til sín.

Kattavinafélag Íslands var stofnað 28. febrúar 1976. Aðalhvatamaður að stofnun þess var Svanlaug Löve. Tilgangur Kattavinafélagsins er að vinna að betri meðferð katta og standa vörð um að kettir njóti þeirrar lögverndar sem gildandi dýraverndunarlög mæla fyrir um, og stuðla að því að allir kettir eigi sér húsaskjól, mat og gott atlæti.

Hús Kattavinafélags Íslands, Kattholt, opnaði í júlí 1991 og var þá suðaustur hluti hússins tekinn í notkun undir starfsemi félagsins. Þessu húsnæði var skipt í deildir fyrir óskilaketti, gæsluketti og skrifstofu. Reykjavikurborg veitti töluverðan styrk til þessara framkvæmda, en jafnframt lögðu meðlimir félagsins fram mikla sjálfboðavinnu við smíðar, pípulagnir, málingarvinnu og fleira. Við opnunina fluttust óskilakettir af höfuðborgasvæðinu frá Dýraspítalanum í Víðidal í Kattholt, þar sem meginmarkmið starfseminnar var helgað þeim. Þar með hófst mikið starf við umönnun þeirra, leit að réttum eigendum eða að öðrum kosti að finna nýtt heimili fyrir þessa ferfættu vini. Ennfremur hefur félagið unnið hörðum höndum við að koma í veg fyrir að kettir týnist. Þetta hefur verið gert með því að hvetja dýraeigendur til að merkja þá greinilega.

Þetta starf, sem er að miklu leyti unnið í sjálfboðavinnu er mjög mikilvægt í þéttbýli en er því miður oft vanmetið af yfirvöldum og almenningi. Ef þessir kettir hefðu í engin hús að venda, sæum við fljótt verulega fjólgun á litlum samfélögum villikatta hér og þar í borginni. Kettir sem lifa villtir geta verið smitaðir af spóluormum, bogfrymli, eyrnamaurum, augnsýkingum og kattafári svo eitthvað sé nefnt. Þessir kettir geta smitað heimilisketti og viðhalda þeir smitinu í umhverfinu. Auk þess þurfa þessir kettir að veiða sér fugla og mýs til matar og fara oft í rusl í íbúðarhverfum. Af þessu hlýst verulegt ónæði. Þegar kólna fer í veðri verða vegalausir kettir oft svangir, kaldir og illa til reika. Dánartíðni verður mjög há um vetur, sérstaklega hjá kettlingum. Vegna dýraverndarsjónarmiða er ekki annað hægt en að reyna að koma í veg fyrir að slík samfélög fái að þróast og stækka. Það er því nauðsynlegt að athvarf fyrir óskilaketti sé fyrir hendi.

Í Kattholti fá kettirnir góða aðhlynningu. Þeir eru geymdir í rúmgóðum búrum og fóðrun og hreinlæti eru til fyrirmyndar. Í Kattholt koma kettir frá öllu höfuðborgarsvæðinu, sem bæði lögreglan og almenningur koma með. Þar sem margir kettir eru samankomnir í einu húsnæði hafa sóttvarnir alltaf verið efst í hugum manna. Það varð því fljótlega ljóst að aðskilja þurfti óskilakettina frá gæsluköttunum. Það var svo í júlí 1992 að vesturhluti bakhúss var tekið í notkun fyrir óskilaketti. Þótti þetta mikil framför auk þess sem hægt var að auka gæsluna, sem yfir sumartímann er einhver helsta fjáröflun félagsins.

Sumarið 1993 gerðist það sem menn höfðu mest óttast. Það kom upp smitsjúkdómur meðal óskilakattanna, sem leiddi til þess að aflífa þurfti hluta þeirra. Viðbrögð félagsins við þessum skelfilaga atburði voru skjót, ákveðin, fagleg og til fyririmyndar. Þess var strax farið á leit við félagsmenn að styrkja félagið í að hólfa óskilakattadeildina í 5 aðskilin herbergi og koma upp góðu loftræstikerfi. Með þessu móti er hægt að takmarka útbreiðslu smits og aðskilja heilbrigða einstaklinga frá sjúkum. Átak þetta færði félagið á fjórða hundrað þúsund. Þrátt fyrir þröngan fjárhag, var hægt með hjálp góðra manna að koma upp þeirri góðu aðstöðu sem notuð er í dag.

Á undanförnum árum hefur starfsemi Kattavinafélags Íslands fyrst og fremst miðast við Reykjavík og nágrannabyggðarlög. Af þessum sveitarfélögum hefur þó Reykjavíkurborg ein veitt framlag til starfseminnar árlega. Allri ósk til annarra sveitarfélaga um framlag til rekstursins á undanfórnum árum, hefur því miður verið synjað. Þó er í lögum að sveitarfélögum, hverju fyrir sig, beri skylda til að halda óskiladýrum í skefjum. Aðferð sú sem Kattavinafélagið hefur valið sér er tvímælalaust sú mannúðlegasta og besta sem völ er á. Þar eru hagir og þarfir dýranna í hávegum hafðir.

Það væri óskandi að í hinni allra nánustu framtíð sæju önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og víðar sér fært að koma inn í þetta starf af fullum krafti, svo stíga megi stór og farsæl skref á þessu sviði inn í 21. öldina.

Þorvaldur H. Þórðarson, dýralæknir og
Katrín Harðardóttir, dýralæknir