Um miðjan desember á síðasta ári var kassi fullur af kettlingum skilinn eftir í fjölbýlishúsi. Kattholt tók þessa móðurlausu unga inn til sín og sá um þá. 

 

 

Af þessum kettlingum var ein þrílít yndisleg læða sem við mæðgurnar vorum svo heppnar að fá að taka heim til okkar.

 

 

Við höfðum lengi fylgst með síðunni til að reyna að finna leikfélaga handa gamla kettinum okkar, Míó, sem leiddist ógurlega eftir að við fluttum og hann varð að vera innikisa.

 

Læðan var skírð Stella og við fengum hana rétt fyrir jólin. Fyrstu dagana kom köttunum tveim ekkert alltof vel saman og var mikið hvæst. Núna leika þau sér hins vegar saman á hverjum degi og er hægt að segja að Míó sé genginn í barndóm.
Hún er ægilega mikill stríðnispúki og finnst gaman að ráðast á Míó meðan hann sefur. Hann þykist þá ekkert getað varið sig og leyfir henni að hnoðast lengi í sér þangað til hann fær nóg og slær til hennar, ekki þó fast. Á kvöldin tekur hún síðan æðisköst þar sem hún þeytist um alla íbúðina og hrindir öllu um koll. Míó horfir þá oftast á úr fjarska, mjög hneykslaður yfir þessum kettlingalátum í henni. Þau eru þó bestu vinir og finnst best að sofa hlið við hlið í sófanum.
Takk kærlega Kattholt fyrir að hafað bjargað þessari yndislegu kisu, hún hefur svo sannarlega lífgað upp á heimilið. Gaman væri að vita hvernig systkinum hennar liði en hún saknaði þeirra mikið fyrstu dagana og leitað að þeim um alla íbúðina. Við sendum líka með nokkrar myndir af Stellu á nýja heimilinu.
Diljá og Borghildur, Stella og Míó