Rakel bjargar litlum kettling.

10 jún, 2008

Fann nýfæddan kettling í fjöru


 


Rakel  Þorsteinsdóttir 11 ára nemandi í Brekkubæjarskóla á Akranesi er mikill dýravinur. Þegar hún var í fjöruferð við Breiðina ásamt bekkjarfélögunum fyrir helgina fundu þau nýfædda kettlinga í poka í fjörunni.


 


Rakel stóðst ekki mátið og stakk einum þeirra undir peysuna og laumaðist burtu. Krakkarnir urðu þess vör og fannst þetta rangt af henni, veittu Rakel því eftirför, en hún komst heim til sín með kettlinginn.


 


Krakkaskarinn var ennþá á eftir og í hópinn hafði bæst lögregluþjónn, sem var látinn vita af fundinum í fjörunni. Lögreglan yfirheyrði Rakel og skýrði út fyrir henni að þetta hafi hún ekki mátt gera.


 


Hún var í uppnámi en spurði lögregluþjóninn þeirrar spurningar, hvort hann hefði viljað vera í sömu sporum og kettlingurinn, svona lítill og ósjálfbjarga og geta enga björg sér veitt. Ekkert hefði beðið hans annað en dauðinn og hún vildi gjarnan eiga hann enda kettlingurinn fallegur.


 


Lögreglumaðurinn meyrnaði við þessi svör og lyktir þessa máls urðu þau að Rakel fékk að halda kettlingnum. Því miður urðu örlög hinna málleysingjanna eins og annarra sem lenda að endingu í höndum meindýra- og dýraeftirlitsmanns.


 


Rakel Þorsteinsdóttir 11 ára nemandi Brekkubæjarskóla vildi endilega eignast einn kettlinginn sem fannst í fjörunni.


 


Birt með leyfi Skessuhorns.