Sælar kæru Kattholtskonur

 

 

Það eru nokkur ár síðan undirrituð áttu kött síðast, hann var svo sérstakur og átti það stóran stað í hjarta okkar að við þurftum þetta langan tíma til að vilja fá kött aftur á heimilið. Þegar við fórum að ræða möguleikana á því að fá okkur kisu hugsuðum við strax til ykkar og í raun kom ekki annað til greina en að fá kisu hjá ykkur vegna alls hins góða starfs sem þið leysið af hendi. Ekki er vanþörf á.

 

 

 

Maðurinn minn átti leið um borgina fyrir viku síðan og skoðaði kisur í heimilisleit hjá ykkur. Eftir að ein hafði stolið úr honum hjartanu strax við fyrstu kynni tók hann hana með sér heim. Eftir fjögurra tíma samveru í bílnum voru þau orðnir bestu vinir og nafnið komið, Anastasía Romanov.

 

 

 

Eftir vikudvöl hjá okkur er hún búin að eigna sér heimilið með öllum sem í því eru. Besti stóllinn við sjónvarpið var strax hertekinn, góður stóll við matarborðið var valinn og besti glugginn til að dáðst að útsýninu, en mörkin voru dregin við rúmin okkar þó að hún reyni oft að skríða upp í. Hún er mjög kelin við okkur og vill helst vera í sama herbergi og við. Hún var svolítið öryggislaus fyrstu dagana en nú er eins og hún hafi alltaf verið hjá okkur. Hún er ekki sátt við okkur ef við erum ekki komin á fætur klukkan sjö á morgnana, þá er hún orðin leið og til í að spjalla. Ekki eru allir jafn ræðnir og hún svo snemma dags.

 

 

 

Við ræddum við Anastasíu að vingast sérstaklega við einmana lítið hjarta á heimilinu sem er aðeins á skjön við aðra í lífinu og hún tók okkur á orðinu. Þau eru bestu vinir og hann má ekki af Anastasíu sjá eða hún af honum. Þau stelast til að sofa í sama rúmi þegar fullorðnir sjá ekki til, leika sér heilmikið bæði úti og inni, horfa á sjónvarpið saman og eins og hann segir: ,,Nú er ég aldrei einn, Anastasía er hjá mér.” Hann er ofsalega góður við hana og þegar hann heldur að enginn heyrir til hans, trúir hann henni fyrir sínum innstu hjartans málum. Við gætum ekki verið hamingjusamari með kisuna okkar. Við vitum að aðeins vika er liðin en byrjunin lofar mjög góðu og vekur trú okkar á að Anastasia sé akkúrat rétta kisan í starfið á þessu heimili.

 

 

 

Bestu kveðjur og kærar þakkir fyrir okkur, við látum heyra í okkur örugglega í framtíðinni með sögur af ævintýrum Anastsíu og nýja besta vinar hennar

 

Anastasía Romanov og fjölskylda