Kæra Kattholt.
Okkur langaði bara að láta ykkur vita hvernig gengur með kisuna sem við fengum hjá ykkur 26. febrúar. Það var lítil hvít og bröndótt læða sem var skírð Trítla af heimasætunum hér. Hún er alveg ofvirk og afar blíð þegar henni finnst það viðeigandi. Hún fékk að fara út í fyrsta skipti á mánudaginn var og létti þá stórum á sófanum og öðrum mubblum sem hún hefur haft sem leikvang síðan hún kom. Kisinn okkar sem er að verða 8 ára, Gosi heitir hann og er geltur högni norðan af Skaga, er ekkert hrifinn af þessum ærslabelg og alveg á taugum ennþá yfir henni. Stundum þorir hann varla inn og hún sætir auðvitað færis og situr fyrir honum og hann er eltur skelfingu lostinn um alla íbúð! Það þykir henni æði, notfærir sér grandaleysi hans og meinleysi – það er varla að hann fatti að hann getur alveg varið sig, hann er helmingi þyngri og stærri. En hann er sem sagt svo meinlaus að hún hefur nær alltaf yfirhöndina. En þetta kemur allt. Hún er búin að hitta nokkra ferfætta nágranna og það er helst ein gömul læða hér í nágrenninu sem getur sagt henni til syndanna, það er greinilegt að kvenkynið er miklu ráðríkara hjá kisum en karlkynið, allavega þegar kemur að því að eigna sér yfirráðasvæði og sýna öðrum hver ræður hér! Annars finnst henni of kalt og það blæs mikið hérna við sjóinn, hún fer því stutt út og nota kassann eingöngu, enda ekki nógu örugg útivið til að gera þarfir sínar í blómabeðin okkar… eða nágrannanna…?! En hún er mjög félagslynd og telur fólk vera jafningja sína, eins og sönnum ketti sæmir, stundum heldur hún reyndar að við eða gestir okkar séu klórubretti eða klappvélar eða hendur þeirra sérstök leikföng sem má bíta og klóra óþyrmilega og þá er hún skömmuð en hún skammast sín ekkert mikið, höldum við, verður bara móðguð og þreytt á þessum leiðinlegu tvífætlingum! Hún sefur lítið, mjálmar mikið og talar við mann, étur yuccu-pálmann í stofunni eins og hann sé sérstaklega ræktaður handa henni til að bæta meltinguna, fer upp á borð við hvert tækifæri þótt henni sé stöðugt bannað það og ýmislegt fleira, enda með endemum uppátækjasöm. Stelpunum finnst hún frábær, enda vanar kisum, leika við hana þar til hún örmagnast (og þarf mikið til því hún er óstöðvandi, væri á rítalíni sennilega ef hún væri barn), en þegar þær vilja halda á henni og kjassa verður hún ekki hrifin, vill bara láta klappa sér á jafnsléttu.
Jæja, við biðjum að heilsa hinum kisunum, gangi ykkur vel, Helga og fjölskylda á Ægisíðunni.
P.S. ég var að lesa í blaðinu um rannsókn sem dýralæknir gerði um ástæður fyrir að fólk lætur svæfa dýrin sín og þar segir að það sé ótrúlega oft vegna þess að það sé að fara í frí (!), miklu oftar reyndar gert við ketti en hunda og talað um að það sé vegna þess að hundaeigendur geri sér betur grein fyrir ábyrgðinni sem fylgir hundaeign. Þetta er áreiðanlega rétt en ég vil bæta við að það er líka vegna þess að minni virðing er borin fyrir köttum, af mörgum – ekki öllum auðvitað, en meiri fyrir hundum. Það eru svo ótrúlega margir sem líta ketti hornauga og tala illa um þá án þess að þekkja þá neitt, láta bara eldgamla fordóma stýra því hvað þeir halda um þá. Alveg óþolandi. Persónulega finnast mér öll dýr yndisleg og mannbætandi að umgangast þau en það þarf að gera með virðingu fyrir einkennum hverrar tegundar og einstaklings og ekki að yfirfæra mannlegt eðli á dýrin, það er fáránlegt og ekki til að auka virðinguna fyrir dýrunum, þau þurfa að fá að vera hjá okkur á sínum forsendum eins mikið og hægt er, nóg er nú samt sem þau þurfa að aðlagast manninum og öllu sem honum fylgir.
H.