Kæra Sigríður og starfsfólk.
Þann 19. febrúar s.l. komum við hjónin ásamt “fóstur” dóttur okkar að vita hvort við fyndum kisu sem litist vel á okkur.  Högninn Gestur hitti í mark og fór heim með okkur.  Hann var innilokaður fyrstu 2 dagana og tæplega þó, til að venja hann við nýja heimilið.  Mikil útþrá hans varð þó til þess að hann fór fyrr út en ætlað var í upphafi og byrjaði að skoða svalirnar á 2. hæð.   Þaðan lá svo leiðin niður á hátt grindverkið á sólpallinum á jarðhæðinni og út í hinn stóra heim.  Í fyrstu læddist hann meðfram veggjum hússins, en á öðrum degi útiveru og frelsis stækkaði hringurinn svo að farið var að leita hans um hverfið.  Meðan á leitinni stóð með köllum og “kis-kisi” kom hann heim sallarólegur og fékk harðfisk að launum.  Í ljós kom eftir heimsókn til dýralæknis að hann þurfti að fá augndropa vegna þrengsla í táragangi á hægra auga.  Fær hann harðfisk eftir hverja dropagjöf þrisvar á dag og er ánægður með þau skipti!!!  Í hvert skipti sem heimilisfólkið gengur um ísskápinn er hann mættur og mjálmar eymdarlega og horfir á hilluna þar sem harðfiskurinn er geymdur.
Þegar barnabörnin svo koma í heimsókn má vart á milli sjá hvort er ánægðara, barnið eða kötturinn.  Á meðfylgjandi mynd er Gestur að kúra í hálsakot barnabarns okkar.
Gestur hefur það gott á nýja heimilinu og fær að mestu að valsa inn og út að eigin vild.  Hann hefur reyndar eignað sér hillu í náttborðinu okkar.!!! 
Bestu kveðjur og okkur þætti vænt um ef hægt væri að koma kveðju til fyrri eigenda Gests.
Lilja og Stefán.