Er kötturinn þinn örmerktur? Til þess að auka líkurnar á að týndur köttur komist heim er mikilvægt að hann sé örmerktur. Örmerki, sem er á stærð við hrísgrjón, er skotið undir húð á milli herðablaða kattarins. Einnig er mikilvægt að útikettir jafnt sem innikettir séu með merkta ól með upplýsingum um heimilisfang og símanúmer eiganda. Ólar geta dottið af, því þarf líka að örmerkja kettina.

Þegar örmerktur köttur fær nýjan eiganda er mikilvægt að breyta skráningu á örmerki. Í flestum tilfellum er það fyrri eigandi sem þarf að láta breyta skráningunni. Þetta er mikilvægt atriði svo hægt sé að ná sambandi við réttan aðila. Dýraauðkenni.is er miðlægur gagnagrunnur og geymir örmerkingu og eyrnamerkingu dýra. Skrásetning er ódýr og fer fram hjá dýralækni.