Kötturinn Carras var skotinn innanbæjar með haglabyssu. Eigandinn, Huld, afar ósátt.

9 May, 2009

Meindýraeyðir á Húsavík skaut köttinn Carras innabæjar á þriðjudagskvöldinu en eigandinn, Huld Hafliðadóttir, er afar ósátt við aðfarirnar. Samkvæmt reglugerð sem bærinn hefur sett þá er lausaganga katta bönnuð í bænum.


„Ég frétti af því frá nærliggjandi íbúum að þeir hefðu heyrt tvo skothvelli,” segir Huld sem áttaði sig ekki strax á málinu en hún á tvo ketti. Sá sem lifði af skilaði sér heim daginn eftir kattardrápið en hún sagði hann hafa verið verulega illa farinn. Huld fór með hann til dýralæknis sem sagði dýrið vera í nokkurs konar taugaáfalli.


„Ég fór þá að pressa á bæjaryfirvöld og meindýraeyðinn um upplýsingar um afdrif kattarins. Allr neituðu að hafa komið að þessu og bentu á hvorn annan,” segir Huld en hún fékk þó að lokum játningu frá meindýraeyðinum.


„Hann játaði að hafa skotið köttinn en sagðist hafa gert það í skjóli bæjaryfirvalda,” segir Huld og bætir við að meindýraeyðirinn hafi sýnt henni leyfi sem hann hafi frá lögreglunni á Húsavík til þess að bera og beita skotvopnum innanbæjar.


Huld segist vera reið bæjaryfirvöldum fyrir að beita slíkum úrræðum við að losa ketti af götum bæjarins. Hún segir að þetta geti nú sennilega ekki staðist lög. Um aflífun dýra í lögum um dýravernd segir orðrétt:


Dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti og eftir því sem unnt er án þess að önnur dýr verði þess vör.


Sjálf segist Huld reiðust yfir því að enginn hafi beðist afsökunar á að skjóta dýrið. Hún sé sár, og finnist málið undarlegt í ljósi þess að enginn vill gangast við kattardrápinu að hennar sögn. Hún spyr líka hvort það sé eðlilegt að menn séu að hleypa af haglabyssum í íbúðahverfum.


Aðspurð hvað hún hyggist gera í málinu svarar hún: „Ég ætlaði ekki að gera neitt. En núna ætlum við að fá lögfræðiálit á málinu.”


Huld segir það leiðinlegt að missa köttinn Carras og þá sérstaklega með þessum hætti. Hún bætir svo við að lokum: „Þetta er bara villimennska.”


 Visir.is.