Kattholti hefur borist liðsauki úr óvæntri átt

19 okt, 2012


Út er komin alveg bráðskemmtileg bók, Kattasamsærið eftir Guðmund S. Brynjólfsson rithöfund og það var óvanalegt erindi sem okkur hjá Kattavinafélaginu barst.


Semsagt hvort við samþykktum að þiggja 10% – tíund – af verði hverrar seldrar bókar til að styrkja við Kattholt!
Enginn þarf að spyrja um svar okkar og stjórnarkonur úr Kattavinafélaginu voru afar stoltar þegar þær tóku við fyrsta eintakinu úr hendi Bjarna Harðarsonar bóksala og eigandi Bókakaffis á Selfossi í versluninni Iðu fyrir skömmu.


Að auki hefur Bjarni Harðarson fengið allar stóru bókabúðirnar í lið með sér – að gefa tíund af söluandvirði bókarinnar til Kattholts.


Við hvetjum alla kisuvini að styrkja Kattholt með kaupum á þessari bók sem svo sannarlega gleður alla – alllt upp í fullorðna sem skella upp úr hvað eftir annað. Snilldarlega vel skrifuð, fræðandi og skemmtileg bók.


Kattavinafélag Íslands þakkar þeim Bjarna og Guðmundi af alhug fyrir hugulsemi og umhyggju fyrir köttum.


Nánar má lesa um bókina hér:



Kattasamsæri til styrktar Kattholti


Kattasamsærið er heiti nýrrar barnabókar Guðmundar S. Brynjólfssonar rithöfundar. Bókin er gefin út í samráði við Kattavinafélag Íslands og renna 10% af andvirði hverrar bókar til Kattholts.


Saga þessi er ekki venjuleg saga af ketti sem leikur sér með bandhnykil og slæmir loppunni letilega í átt að fiskiflugu sem hættir sér of nálægt honum á sólríkum degi. Þetta er heldur ekki saga um kisu sem er hvers manns hugljúfi og malar í fangi fallegra barna sem una sér glöð við að horfa á Stundina okkar. Nei, ó nei! Þetta er allt öðruvísi kattarsaga og því heitir hún Kattasamsærið.


Kötturinn Petra Pott glímir við þann vanda að fólkið hennar fær öðru hvoru þá flugu í höfuðið að hún eigi að fara af heimilinu. En þá kemur sér vel að eiga góða vini sem grípa inn í atburðarásina. Sagan er bærði fyndin og spennandi og við sögu koma kúnstugar persónur eins og hundurinn Lúsíus, ofurkötturinn Hamlet og þau Elinóra og Hrólfur sem eru allavega ekki kindur, svo mikið er víst.


Tíund af verði hverrar bókar rennur til Kattholts sem er eina athvarfið fyrir ketti á Íslandi. Þar dvelja að jafnaði allt að eitt hundrað óskilakettir sem bíða þess að einhver veiti þeim heimili. Kattholt er sjálfstæð stofnun, rekin af Kattavinafélagi Íslands og nánast einu tekjur þess eru félagsgjöld. Vefsíða heimilisins er kattholt.is og sími 567 2909.


Höfundurinn Guðmundur Brynjólfsson hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2009 fyrir bók sína Þvílík vika og Grímuverðlaun árið 2010 fyrir barnaleikritið Horn á höfði. Útgefandi Kattasamsærisins er bókaútgáfan Sæmundur sem rekin er í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi.