Skömmu fyrir vetrarlok birti heldur betur upp hjá Kattholti og Kattavinafélaginu. Þá var tilkynnt að Kattholt væri tilnefnt til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins. Í sama hópi og Kattholt fengu tveir aðrir tilnefningu og fulltrúi eins hópsins fékk peninga, 1,2 milljónir.
Þær Halldóra Björk Ragnarsdóttir og Anna Kristine Magnúsdóttir veittu viðtöku blómvendi og afar fallegum verðlaunagrip og það gat hver sem vildi séð hvaða tvær konur í salnum voru að springa úr stolti. Það voru stjórnarkonurnar Eygló Guðjónsdóttir og Ósk Óskarsdóttir.
Þegar við sögðum kisunum í Kattholti að við hefðum fengið þennan fallega verðlaunagrip og blóm en enga peninga sagði ein kisan á kisumáli: ,,Það gerir ekkert til. Peningar eru miklu minna virði en ást og hér í Kattholti fáum við alla þá ást sem við þurfum!“
Það voru því stoltar stjórnarkonur sem kvöddu Ólaf Stephensen ritstjóra Fréttablaðsins, eftir að hafa þegið gómsætar veitingar. Hann sagði í ræðu sinni til okkar að mesti gleðigjafinn á heimili hans væri tveggja ára kisa sem hann hafði sótt upp í Kattholt.
Kattavinafélagið og Kattholt þakka af heilum hug þeim sem völdu félagið sem eitt þeirra sem ynni góð verk sem lítið bæri á. Það er okkur mikill heiður að fylla nú hóp þeirra fjölmörgu sem hafa verið tilnefndir og/eða hlotið Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins.
Takk fyrir okkur!
Við sendum okkar bestu kveðjur til allra félagsmanna og kisueiganda um land allt og óskum þeim gleðilegs sumars um leið og við þökkum stuðninginn í vetur.
Stjórn Kattavinafélagsins, Kattholt, starfsmenn þess og kisurnar.