Hugleiðingar kattareiganda – að gefnu tilefni:

7 apr, 2013

Þær eru ófáar fjölskyldurnar sem
bíða frétta af týndum heimilisketti þessa dagana. Við spyrjum okkur: hvað verður um gæludýr sem hverfa úr hlaðinu,
bara si svona, eins og jörðin hafi gleypt þau? Hvað gerir fólk þegar það sér að
nýr köttur er kominn í hverfið, hangir jafnvel
við hús þeirra, ráðvilltur, svangur, kaldur eða særður? Hvað ef fólk gengur
fram á kött sem það hugsar að hljóti af einhverjum ástæðum að vera villtur?

Ég hef leitað að kisa mínum síðan
6. febrúar, meðal annars ítrekað gengið um Seltjarnarnes, Vesturbæ og Þingholt,
auglýst í blöðum, búðum og víðar og spurst fyrir á förnum vegi.
 
Ég hef hitt fyrir velviljað fólk
sem fylgist með kisunum í hverfinu og aðkomuköttum og reynir að aðstoða dýrin
og eigendur sem leita þeirra, eins og það getur. Ég hef hitt fyrir fólk sem
þolir ekki ketti en virðist annars ágætis fólk. Ég hef hitt nokkra (samt fáa)
sem gæti ekki verið meira sama, yfirleitt.
 
Ég hef heyrt sögur af fólki sem
nemur ketti á brott og fer með þá langt frá heimili sínu, fólk sem byrlar þeim
eitur eða drepur þá með öðrum hætti og jafnvel sögusagnir um að einhverjir
leggi þá sér til munns. Hvort eitthvað er til í þessum sögusögnum get ég ekki
staðfest.
 
Til er fólk sem skýtur skjólshúsi
yfir dýr á vergangi og/eða skilur eftir mat fyrir utan dyrnar sínar fyrir ketti
sem koma að dyrum þeirra um nætur. Við sem týnum dýrunum okkar verðum að vona
að þau verði á vegi þessa fólks.
 
Því miður virðist ferðalag míns
ljúfa, fjórfætta vinar ekki hafa byrjað svo vel og má að líkum leiða að
dómgreindarbrestur þeirra sem urðu á vegi hans stuttu eftir að hann tapaði
áttum og jafnvel síðar, eigi stóran þátt í því að hann er enn ófundinn.
 
Ég biðla til fólks, hugið að
dýrum sem þið vitið að eiga ekki heima í hverfinu ykkar.
 

Hlúið að dýrum sem bera sig eftir
aðstoð ykkar.

Leggið ykkur fram um að bjarga dýrum frá því að verða hungri eða kulda að bráð.
Munið að þó dagurinn í dag sé góður getur veðrið orðið vitlaust á morgun.
Aðgerðarleysi ykkar getur leitt til óþarfa þjáningar og ótímabærs dauða. Leitið
leiða til að koma dýrinu til réttra eiganda. Ef ykkur er illa við ketti, leiðið
hugann að því að eftir hverjum heimilisketti bíður áhyggjufull manneskja, oft grátandi barn. Það getur tekið langan tíma
að komast yfir slíkan missi. Verst af öllu er óvissan um örlög þessara
heimilisvina.

EKKI GERA EKKI NEITT!

Hvað hægt er að gera til að forða kisum frá hörmulegum örlögum og
koma þeim til síns heima:

1. Hugsið út í það af hverju
heimilisköttur sem þið kannist ekki við fer að halda til við húsið ykkar og
leita til ykkar eftir samskiptum, hlýju eða mat. Ef eitthvað í hegðun dýrsins
vekur sérstaka athygli ykkar og bendir til þess að ekki sé allt með feldu, ekki
gera ekki neitt.
 
2. Ef dýr virðast svöng eða
þreytt, ráðvillt eða meidd, reynið að nálgast þau, lokka þau til ykkar. Oft er
það auðvelt því dýrin eru gæf, leitandi eða svöng. Það getur þó verið
nauðsynlegt að beita lagni og ákveðni sem er á sig leggjandi, jafnvel þótt það
gæti kostað nokkrar skrámur.
 
3. Kíkið á merkingar, á ól eða í
eyra ef engin er ólin. Ef köttur er ekki með ól, ekki hugsa að eigandinn hefði
bara átt að merkja köttinn betur og geti þá sjálfum sér um kennt ef kötturinn
er týndur. Margir kettir eru merktir með númeri í eyra eða með litlum kubbi sem
settur er undir húð og virkar líkt og strikamerking á vöru (örmerking). Svona
merkja eigendur dýrin varanlega, en ólar geta dottið af og sumir kettir taka
þær af sér sjálfir.
 

4. Ef þið sjáið símanúmer eða
heimilisfang (ekki í nágrenni) hafið samband við eiganda.

 

Guðrún Kristín Steingrímsdóttir

Cori kisi er ennþá (í byrjun apríl) týndur frá Tómasahaga í
Reykjavík.

ATH
Hægt er að láta lesa örmerkingar hjá dýralæknum og í Kattholti. Að gera það
getur skipt sköpum um að týndur köttur komist aftur til síns heima. Jafnvel
bjargað lífi hans og vekur að sjálfsögðu mikla gleði eiganda (og hjá kisu) að
endurheimta dýrið sitt.