Kæra Sigríður.
Var að kíkja við á Kattholtssíðunni sem oftar og sá hugleiðingar þínar þar. Ég skil vel að þér fallist hendur yfir þeirri meðferð sem kettir mega þola hér á landi.
Alltaf verð ég jafn undrandi og reið yfir því hvernig fólk getur farið með saklaus dýr, en svo gleðst ég jafn oft yfir því að kisurnar skuli eiga ykkur í Kattholti að. Hugsa sér hvað stofnun Kattavinafélagsins og athvarfsins hefur gert fyrir allar þessar vegalausu og vansælu kisur.
Þið hafið í einu orði sagt unnið ómetanleg störf fyrir allar þessar kisur, sem með einum eða öðrum hætti hafa notið þeirrar gæfu að rata til ykkar.
Auðvitað er mjög skiljanlegt að þið takið nærri ykkur þegar þarf að svæfa góð og falleg dýr, en ég leyfi mér að halda því fram og hugga mig við, að það sé betra en að þær lendi hjá vondu fólki.
Sárast af öllu er að vita til þess að finnist allt þetta fólk sem kann ekki að meta elsku og tryggð dýra, sem það tekur að sér og á að bera ábyrgð á. Fátt er eins gefandi, bæði fyrir börn og fullorðna, að annast og þykja vænt um dýrin sín.
Eins og þú hefur oft bent á þarf að kenna börnum frá unga aldri að bera virðingu fyrir dýrum. Því miður virðist of margt ungt fólk í dag ekki bera virðingu fyrir neinu, varla einu sinni sjálfu sér.
Ég er alin upp með kisum, stundum voru margar á heimilinu, því mamma mín hændi að sér allar kisur í hverfinu til lengri eða skemmri tíma.
Eitt veit ég fyrir víst, kisulaus gæti ég aldrei verið.
Segi bara áfram Kattholt og hvet ykkur til að halda baráttunni áfram og munið, aldrei að gefast upp!
Hlýjar kveðjur í Kattholt frá mér og mínum,
Eygló G.