HÚSKÖTTUR KATTHOLTS KVADDUR

16 jan, 2013

 
Þeir sem hafa heimsótt Kattholt á síðustu sjö árum hafa vafalaust tekið eftir móttökustjóranum þar, honum Bjarti.  Þessi blíði og fallegi köttur kvaddi jarðneskt líf þriðjudaginn 15.janúar 2013 og hleypur nú um á eilífðar veiðilendum kisuhimna. Stjórn og starfsfólk Kattavinfélags Íslands kveður sinn ástkæra kött hér með nokkrum orðum, enda ekki hægt að láta hann fara án þess að segja sögu hans.

 

 

Bjartur fannst á vergangi í Mosfellsbæ fyrir rúmum sjö árum og var því orðinn riflega fjórtán ára gamall, sem er nú bara þó nokkuð fyrir kisu sem hefur upplifað að vera heimilislaus.  Þegar komið var með Bjart í Kattholt var byrjað á að skanna hann og viti menn: Jú, Bjartur var örmerktur! Eins og alltaf er gert var umsvifalaust hringt í eiganda hans með þær gleðifréttir að Bjartur væri kominn í Kattholt. En nei, ó nei, eigandi hans vildi ekkert með hann hafa lengur.  Því miður er þetta síður en svo eina dæmið um kattareiganda sem vill ekki dýrið sitt aftur –  en þá kemur Kattholt til sögunnar.

 

 

Bjarti fannst bara hreint ágætt að búa í Kattholti. Þar tók hann móti kisum sem komu til hótelgistingar og úr augum hans gátu eigendurnir lesið: ,,Þetta verður í góðu lagi, kisa á eftir að líða mjög vel hjá okkur.“  Þess vegna var Bjartur ekki aðeins móttökustjóri, heldur einnig hótelstjóri og þar sem hann lá oft í lúgunni inn að skrifstofunni til að missa nú ekki af neinu, var hann líka skrifstofustjóri.

 

 

Bjartur fékk að valsa um húsið að eigin vild, hann sat stjórnarfundi og aðstoðaði dyggilega á basar Kattavinafélagsins ár eftir ár. Þá fylgdist hann sérstaklega vel með posanum og gætti þess að allt færi nú vel fram. Honum var umhugað um að Kattholt héldi áfram að vera gott og fallegt heimili fyrir kisur eins og hann sem enginn vildi og þegar hann var beðinn um að safna peningum fyrir Kattholt á sýningu Kynjakatta í haust hélt hann nú það!  Á sýningunni kúrði hann í körfunni sinni í tvo daga, frá morgni til kvölds, og fyrir hvert strok eða klapp voru greiddar eitt hundrað krónur. Svo blíður var Bjartur að litlar og stórar hendur kepptust um að strjúka fallega feldinn hans aftur og aftur og Bjartur safnaði yfir hundrað þúsund krónum með þolinmæðinni!

 

 

En Bjartur var ekki bara inni í Kattolti. Stundum vildi hann athuga hvort allt væri í lagi í heiminum og bað þá um að fara út. Hann gekk þá hring í kringum húsið, kom inn og sagði hinum kisunum frá veðurfari og nýjustu fréttir úr Stangarhylnum. Einu sinni að sumri til gleymdist hann úti þegar starfsfólk fór heim, en viti menn: næsta morgun beið Bjartur fyrir framan starfsmannainnganginn, mættur til vinnu fyrstur allra!

 

 

Já, hann Bjartur var einstakur köttur, geðgóður og lynti við aðra ketti. Þó var hann ekkert mjög hrifinn af kettlingum hin síðari ár, honum fannst of mikil læti í þeim, enda var Bjartur orðinn roskinn og vildi helst ræða við ketti á sínu reki.

 

 

Starfsfólk í Kattholti hefur kynnst mörgum köttum í gegnum árin og eins og manna og katta er siður hafa þeir misgott geðslag. Bjartur var alveg sérstakur, hann mótmælti aldrei og leit með aðdáun á starfsfólk Kattholts, sem hann vissi að gerði allt fyrir hann.

 

 

Við munum öll sakna Bjarts. Hann var yndislegur kisi, svo yfirvegður og góður og átti rósemi hugans, svo mikið er víst. Á kisuhimni biðu hans örugglega þær fjölmörgu kisur sem fóru þangað á undan honum; kisur sem Bjartur huggaði þegar þær komu vegalausar og hræddar inn í Kattholt, sem síðar átti eftir að reynast þeim gott heimili.