Þessi fyrirsögn er auðvitað út í hött fyrir allt kisuelskandi fólk, en hún á eigi að síður erindi við marga. 

 

 

Það hefur færst gríðarlega í vöxt að fólk mæti með kisu upp í Kattholt, rétti hana að starfsmanni og segi: ,,Ég er kominn með köttinn.” – Nú? Á þessi köttur pantað hótelpláss? – Nei, nei, ég bara vil ekki lengur hafa kött!

 

 

Á það skal bent að Kattholt tekur eingöngu á móti vegalausum köttum sem eiga sér hvergi athvarf – og svo hótelgestum. Það er ekki starfssvið Kattholts að greiða fyrir svæfingar, aðgerðir og bólusetningar á köttum sem fólk ,,vill ekki eiga.”  Við höfum bent á að heimiliskettir sem eru ekki lengur velkomnir á heimilum skuli annað hvort svæfðir á kostnað eiganda eða leitað sé eftir góðu heimili fyrir þá með því að auglýsa.

 

 

Við vitum ekki hvernig sá misskilningur komst á kreik að Kattholt tæki á móti öllum köttum landsins. Það myndum við líklega gera ef við gætum, en það er ærinn starfi að bjarga vegalausum dýrum, hlúa að þeim og hjúkra og útilokað að koma fleiri köttum að en þeim sem að ofan er rætt um.  Biðjum við kattaeigendur sem hyggjast losa sig við dýr sín að gera það á mannúðlegan hátt.