Ég hef lengi ætlað að senda ykkur línu og láta vita af henni Slaufu sem við fengum hjá ykkur í Kattholti í fyrravor.
Það er skemmst að segja frá því að slíkur eðalköttur er vandfundin.
Ekki vitum við vel hversu gömul hún er en hún var allavega búin að vera talsvert lengi í Kattholti þegar við fengum hana.
Slaufa hefur unnið hug og hjörtu allra heimilismanna hér og er mikill karakter.
Hún er snögg að finna það ef einhver á erfiðan dag og leggur sig þá fram um að vera góð við viðkomandi.
Best af öllu þykir henni að kúra með okkur fyrir framan sjónvarpið og malar þá hástöfum, stendur annað slagið upp til að koma í fangið á okkur og fá klapp og fer síðan aftur í bælið sitt.
Hún á 2 sambýlisketti á heimilinu en lætur yfirleitt sem hún sjái þá ekki. Ekki miklir kærleikar þar á milli en engin leiðindi heldur, en það fer ekkert á milli mála hver er prinsessan á heimilinu. 🙂
Ekki vill hún mikið fara út heldur er inni og horfir út um gluggann, lætur sig þó hafa það annað slagið að fara út til að viðra sig en stoppar ekki lengi. Hún hefur mikið gaman af því að liggja inni í stofu hjá okkur og horfa á fiska í fiskabúri sem þar er 🙂 Endalaust hægt að fylgjast með fiskalífinu og sennilega láta sig dreyma um að veiða 🙂
En okkur langar að senda ykkur þakklætiskveðjur fyrir þennan dásamlega kött sem kryddar svo sannarlega tilveruna heima hjá okkur.
Mér finnst hræðilega sorglegt að sjá hversu margir kettir eru bornir út.
Bestu kveðjur frá Akureyri
Birna, Slaufa og fjölskylda 🙂