Freki er duglegur kisustrákur.

12 jan, 2008

Sæl og blessuð og gleðilegt nýtt ár.

Mig langaði að senda ykkur nokkrar línur til að láta ykkur vita af honum Freka litla sem kom til ykkar á haustmánuðum.


 


Hann var ekki nema þriggja mánaða þegar hann stökk út um glugga á þriðju hæð um nótt og einhver góður nágranni, sem fann hann um morguninn kom honum til ykkar.


 


Hann var slæptur og gat ekki hreyft afturhluta líkamans og þið fóruð með hann uppí Víðidal. Þar kom í ljós að það höfðu fallið saman tveir hryggjarliðir og hann hafði hlotið mænuskaða.


 


Það var lengi mjög tvísýnt hvort hann hefði það af þar sem hann virtist ekki hafa neina tilfinningu í afturfótunum eða skottinu.


 


Eftir nokkra daga fór hann samt aðeins að hreyfa fæturnar og eftir rúma viku fékk hann að fara heim, honum og bróður hans til mikils léttis.

Þar þurfti hann samt að dúsa í búri til að ofreyna sig ekki. Fyrst í stað gat hann ekki mikið annað en dregið á eftir sér fæturnar en svo fóru að koma skref, eitt og eitt í einu og svo fleiri og eftir um mánuð í búrinu, ótal ferðum uppá spítala og með mikilli heimahjúkrun (enda við systurnar báðar í skóla þannig að við vorum hjá honum allan daginn á vöktum) útskrifaðist hann úr búrinu.


 


Þá fengum við loksins að vita að hann fengi að vera hjá okkur áfram og væri orðinn nógu góður til að geta lifað svo til eðlilegu lífi. Í dag er strákurinn orðinn rúmlega 7 mánaða og er hinn hressasti og kelirófa hin mesta.


 


Afturfæturnir láta ekki alltaf alveg að stjórn, sérstaklega þegar hann vandar sig ekki en það aftrar honum ekki frá því að leika við bróður sinn daginn út og inn. Hinsvegar hefur hann fengið hið viðeigandi viðurnefni Skakklappi en við vonum að það eldist af honum eftir því sem honum fer fram.

Ég sendi hér með mynd af þeim bræðrum sem tekin var skömmu fyrir jól með kærum þökkum fyrir aðstoðina á liðnu ári.  Freki er fremri kisinn á myndinni.

Kær kveðja
Rún, Freki og Fjalar.