Athvarf eins og Kattholt þarf oft að leita að fjölskyldum eða einstaklingum sem eru reiðubúin að taka að sér og fóstra kettlingafullar læður eða læður sem þegar eru búnar að eignast kettlinga. Æskilegt er að fósturfjölskylda sé tilbúin að hafa kettlinga þangað til þeir ná 8-10 vikna aldri. Þá koma þeir aftur í Kattholt og þaðan eru þeim fundin ný heimili.
Það er krefjandi starf, en afskaplega gefandi að fóstra kettlinga, kenna þeim að umgangast manninn og treysta. Til þess þarf tíma, þolinmæði og ást á dýrum.
Það skiptir mjög miklu máli fyrir kettlinga að alast upp inn á heimili heldur en í athvarfi, þar sem þeir læra á umhverfið, nánd, hljóð og öðlast öryggi. Þeir verða mannelskir og í meira jafnvægi en annars. Breytingin sem verður þegar þeir eignast nýja fjölskyldu til framtíðar verður mun auðveldari og þeir verða fljótari að aðlagast nýju heimili.
Kæru dýravinir. Það er alltaf þörf fyrir góðar fósturfjölskyldur fyrir yngstu skjólstæðinga okkar. Við veitum fólki aðstoð og útvegum fóður, sand og annað sem til þarf. Einnig er dýralæknaþjónusta í boði hjá þjónustuaðilum Kattholts. Gott samstarf á milli starfsfólksins okkar og fósturfjölskyldna er afskaplega mikilvægt. Velferð kattanna er í fyrirrúmi og skiptir öllu máli.
Hafir þú áhuga á að hjálpa okkur að hjálpa kisunum sem aðrir hafa yfirgefið til að öðlast gott og hamingjuríkt líf, þá hafðu samband í Kattholt í s: 567 2909 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið kattholt@kattholt.is.
Framlag þitt mun verða mikil metið.