Megum til með að senda ykkur línu og segja frá því hvernig kisan hún Flóra fína hefur það í dag. Af öllum kisum sem ég hef átt þá held ég að hún sé í greindara lagi og alveg yndisleg.
Ég kom í Kattholt í byrjun ágúst 2005 og ætlaði þá að skoða litla þrílita læðu sem ég hafði séð mynd af. Það varð nú ekki af því að sú læðan yrði fyrir valinu heldur valdi önnur þrílit kisustelpa mig, (þær eru reyndar systur) hún reyndi að vekja á sér athygli og skreið ofan í vasann á peysunni minni. Þetta var ást við fyrstu sýn og ég gæti ekki hugsað mér skemmtilegri eða betri kött en Flóru.
Hún er bæði forvitin og stundum svolítið montprik en einstaklega fljót að læra og hagar sér stundum eins og hundur, nær í hluti lætur þá detta í kjöltuna á fólki og vill sækja. Hún opnar allar hurðir svo framarlega sem þær eru ekki læstar og gerir það oft að leik að opna hurð á herbergi, fara inn og henda sér svo á hana hinum megin og reyna að loka á eftir sér !
Flóra fína er samt ekkert matvönd og ef hún fengi að ráða fengi hún það sama að borða og við heimilisfólkið.
Við biðjum að heilsa öllum í Kattholti.