Falleg saga um Gullbrá (Vídeó)

1 sep, 2011

Okkur var að berast sæt saga af kisu sem fór frá okkur í Kattholti fyrir tveimur árum og við hvetjum þá sem hafa fengið ketti úr Kattholti að senda okkur svona jákvæðar og fallegar sögur til að birta á heimasíðunni okkar!


Ég kom til ykkar í september 2009 og fékk kisuna mína Gullbrá.  12. september næstkomandi verða komin 2 ár síðan hún kom hingað heim í fyrsta skipti.


Mig langar að segja ykkur að hún hefur dafnað vel og lítur miklu betur út.  Það vantaði smá þyngd á hana en hún er alveg mátuleg núna og þó matardiskurinn sé alltaf fullur heldur hún þessu alveg í hófi sjálf. Feldurinn er fallegur og glansandi.


Þegar ég kem heim í bíl með foreldrunum þá hleypur hún að bílnum ef hún tekur eftir honum og stundum hoppar hún upp á hann, labbar fram og til baka og kíkir út um hliðarrúðurnar.  Henni finnst svo gaman þegar maður kemur heim.


Ég handmata hana stundum og henni virðist bara þykja gaman að því líka, geri þetta að smá leik.


Hún fær stundum rækjur og royal canin blautmat og það er algjört uppáhald hjá henni, sérstaklega blautmaturinn. Ef hún heyrir í poka sem hljómar á svipaðan hátt, þarf ekki að vera mikið hljóð, þá hleypur hún inn í eldhúsið mjálmandi og setur kryppuna upp við fótinn og horfir upp biðjandi.


Henni finnst mjög gaman að fara út á tún sem er ekki svo langt frá, bara eitt hús á milli. Þar er fullt af löngum stráum sem ég hef stundum notað sem eltingaleikfang, og ég er ekki frá því að þetta sé með uppáhalds leikföngunum hennar.


Stundum er hún í stuði til að láta halda á sér, en þá á sérstakan hátt. Svona hvílir á öxlinni og ég held undir hana, hún vill bara láta halda svona á sér. Þá labba ég um íbúðina og hún skoðar sig um, og dillir skottinu.


Hér er nýtt myndband af henni að borða við matarborðið og ná í matinn úr pokanum með loppunni: