Eigandi tveggja ára kattarins Nölu, Kristján Guðmundsson í Höfnum fékk ekki greiðslufrest til mánaðarmóta og sló lán til að borga köttinn sinn úr haldi heilbrigðis­eftirlits Suðurnesja. Kötturinn var fangaður fyrir utan heimili hans og átti að aflífa hann á miðvikudag yrði greiðslan ekki innt af hendi.


„Framkoma heibrigðisyfirvalda er svo ómannúðleg,” segir Kristján, sem flutti frá Akureyri með fjölskyldunni og köttum sínum tveimur fyrir ári. „Þá fór ég með kettina til dýralæknis, skráði þá og lét bólusetja og ormahreinsa eins og ber. Ég spurði hvort ég hefði þá gengið frá öllu vegna flutningsins á þeim. Ég vissi ekki að kattahald kostaði fimmtán þúsund í sveitarfélaginu. Þannig var það ekki á Akureyri,” segir Kristján.


Magnús H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitisins, segir Kristjáni bæði hafa verið boðið að greiða með kreditkorti fram í tímann eða skilja eftir ávísun. Það hafi hann ekki getað gert. „Við förum eftir reglunum og erfitt að gera undantekningar. Það er ekki fyrir opinbert embætti að mismuna fólki,” segir Magnús. Reglur um kattahald séu mismunandi eftir sveitarfélögum og stífar í Reykjanesbæ til að koma í veg fyrir að fólk fái sér ketti, hirði svo ekki um þá og láti lóga. Síðan reglurnar voru settar taki fólk ekki ákvarðarnir um dýrahald í fljótfærni. Nú heyri til undantekninga sé óskað eftir að köttum sé lógað.


Magnús segir eftirlitið reglulega auglýsa skilmálana í bæjarblöðum, en bendir þeim á sem ekki vita að tilkynna þurfi eftirlitinu sjálfu um kattahaldið.