Sælar – á laugardaginn var sótti ég góðan kunningja til ykkar. Hann fékk nafnið Bellman eftir vísnaskáldinu og lífskúnstnerinum sænska.


Bellman hefur örugglega lifað þessu harða flækingskattarlífi, sem virðist vera það líf sem sumum köttum er boðið af eigendum sínum sem setja lítil varnarlaus dýr sín út á guð og gaddinn að slást fyrir tilverunni.


(Ég get haldið nokkra pistla um þetta málefni .. en ætla að reyna að vera á sólskinsnótunum….) Ég sá hann stundum, þræðandi öskutunnustæðin í götunni minni, svo fór hann að stelast inn í skálarnar hjá dekurkisunum mínum. Þegar hann mætti vinsemd (kisurnar á heimilinu voru að vísu ekkert sérlega hressar með heimsóknirnar), fór hann að taka sér lúr á kúristöðum næst mögulegum flóttaleiðum, og varð tíðari gestur í matardöllunum.


Svo sá ég að hann var kominn til ykkar, og ég tók þeirri áskorun að vera vinur hans í raun og ákvað að taka hann í mína umsjá.


Nú er að koma í ljós stórglæsilegur og blíður og skemmtilegur kisi, með gleði, glettni og ástúð í fögrum augum. Glaður og ákveðinn kisi sem talar og talar með skærri og fallegri rödd.


Hann fór í yfirhalningu hjá yndislegu dýralæknakonunum á dýralæknastofu Garðabæjar, og er nú örmerktur og með tattú, bólusettur, baðaður og snyrtur í kringum sárin sín, á pensilíni við sýkingum við klærnar, og svo var hann þið vitið ……..(verður ekki pabbi fleiri flækingskettlinga hérmeð) Hann var fljótur að læra á kassann og það sem furðulegra var – ólinni sinni fínu tók hann nærri fagnandi og svei mér ef hann er bara ekki svolítið montinn af henni og merkispjaldinu.


Hann er í sérherbergi svona fyrst, og fékk að kíkja á sambýlingana tvö kvöld í röð svona í fanginu á mér áður en ég sleppti honum sjálfum að skoða sig um í vistarverunum nýju í gærkvöldi og það gekk eins og í ævintýri, hann abbaðist ekkert í hinum kisunum og þau ekkert í honum (smá hvæs bara). Svo skellti hann sér bara upp á rúmteppið og lagðist svolítið sér á parti frá hinum kisunum, og lyngdi aftur augunum, kannski sá ég smá hamingjubros og er alveg viss um að ég heyrði mal.


Ég varð hrærð, því eitt sinn þegar hann var í sínu barningalífi, kíkti hann lengra inn í íbúðina og horfði til mín kúrandi með kisurnar mínar allt í kring, og það var von og ósk í augunum hans – bæn sem ég hirti ekki um fyrr en núna. Ég vona að hann fyrirgefi mér það og að restin af kisulífinu hans hjá mér verði gott líf.


Bestu kveðjur og innilegar þakkir fyrir gott viðmót ykkar – Kristín, Belmann og allar hinar kisurnar