Fyrir tilviljun sjá kattavinir glitta í þessa fallegu svörtu og hvítu læðu rétt hjá strætóskýli Setberginu í Hafnarfirðinum þann 5. júlí sl. Hún reyndist vera með sár á bakinu, illa farinn feld og var mjög hvekkt og svöng.
Settur var matur hjá henni og hún borðaði heil ósköp, enda rosalega svöng. En þegar reynt var að nálgast hana þá hljóp hún í burtu.
Ekki gátu kattavinirnir skilið grey kisuna eftir með þetta sár á bakinu svo reynt var að hafa upp á henni og ná henni.
Komust kattavinirnir að því að fólk í hverfinu var búið að vera að gefa kisu litlu að borða í nokkurn tíma og tókst því að nálgast kisu litlu og ná henni.


Þá var farið með hana til okkar í Kattholt þann 15. júlí sl. Sárið á bakinu var allt að gróa og ekkert þurfti að gera í því.
Hún var mjög hrædd, en vildi ólm láta klappa sér.
Það kom svo í ljós að hún var örmerkt og eyrnamerkt og hringt var í eigandann sem skráður var á örmerkið. Þá kom í ljós að kisan heitir Suki og var búin að vera týnd í tæpt ár og eigendur voru búnir að gefa upp alla von um að Suki litla væri enn á lífi.


Það voru miklir fagnaðarfundir þegar eigendur sáu hana Suki aftur eftir allan þennan tíma. Hún er nú komin heim til sín og gengur allt vel þrátt fyrir það að Suki virðist fá stöku martraðir á nóttunni, enda búin að ganga í gegnum margt á þessum útigangstíma sínum. 


Kattholt vill fá að óska Suki og eigendum hennar til hamingju með að fá kisu litlu heim. Við vonum að hún muni hafa það gott.


Kattholt vill einnig minna fólk að láta örmerkja og/eða eyrnamerkja kisurnar sínar – það getur borgað sig.
Fylgist líka með kisunum í kringum ykkur, þær gætu verið týndar og vantar hjálp við að komast heim.


Kisukveðjur frá Starfsfólki Kattholts.