Ættleiðingardagur í Kattholti

25 júl, 2012

Í Kattholti dvelja nú margir fallegir og yndislegir kettir sem leita sér að góðu heimili. Von okkar í Kattholti er að marga langi til að eignast kött og nú er tækifærið.

 

Laugardaginn 28. júlí kl. 11-14 verðum við með ættleiðingardag. Þá geta kisuvinir komið og valið sér þann kött sem þeim list best á, stálpaða eða kettlinga.  Af fyrri reynslu vitum við að hrifningin ber fólk oft ofurliði á þessum dögum, það heillast af fallegu augunum og mjúka feldinum og vill fá kött strax, en hafa kannski ekki alveg hugsað út í hvað það er að fá kött á heimilið. Því miður hefur því gerst að kisunum sé skilað aftur. Héðan í frá munum við því taka frá þann kött sem óskað er eftir, biðjum um smá innborgun á hann og síðan má sækja kisuna strax eftir helgi. Þá gefst fólki líka tækifæri á að vera búið að kaupa það sem þarf, kattamat, kannski kisuklóru eða körfu og leikföng handa kisunni – og lesa á heimasíðunni okkar kattholt.is hvað það þýðir að fá kött inn á heimiið.

 

Við, starfsfólk Kattholts, þekkjum alla kettina vel og getum gefið ykkur ,,persónulýsingu“ á hverjum og einum. Viltu kátan kött, rólegan, stríðinn, kelinn?

 

Allt eru þetta yndislegir kettir sem eiga svo hjartanlega skilið að eignast góð heimili þar sem þeim verður sinnt af ástúð og geta gefið til baka þá ást sem þeir kunna svo vel að sýna.

 

Sjáumst í Kattholti á laugardaginn milli 11 og 14!

 

                                                               Með kærum kisukveðjum

 

                                                               Starfsfólk Kattholts og Kattavinafélag Íslands.