Kveðja frá eigendum Bergs:
Það eru að verða 4 mánuðir síðan Bergur kom til okkar. Bergur er prýðilegur inniköttur. Hann gerir lítið annað en að sofa og felur sig ef gestir koma, sér í lagi ef börn eru með og tilheyrandi hávaði. Bergur er ljúfur og rólegur kringum okkur heimilismennina.
Hann sýnir glugganum lítinn áhuga og hefur mér vitanlega ekki
einu sinni rannsakað alla íbúðina, hvað þá reynt að stinga sér út um útidyrnar.
Hann hefur aldrei kíkt fram á svalirnar þrátt fyrir tækifæri og hvatningu.
Helst vill hann liggja í sófa eða rúmi, nú eða fela sig undir stofusófa. Eitt
sinn týndist hann í heilan dag og fannst loks í handklæðaskápnum.
Hann fór til dýralæknis fyrir 2 vikum og þá var tekin úr honum brotna vígtönni enda komin ígerð í hana. Hann var dasaður um stund en búinn að jafna sig. Mér sýnist hann hreyfa sig stirðlega og við erum að skoða hvort sérstakt fæði fyrir gigtveika ketti hjálpi honum eitthvað. Hann hikar ekki við að borða þurrfæði en er þó hrifnastur af murrpokum. Ég geri ráð fyrir að hann sé eitthvað eldri en við héldum fyrst – kannski 12-14 ára. Mér sýnist það hafa verið ekki seinna vænna að hann kom inn af götunni.
Kveðjur og þakkir fyrir Berg.