Aldrei meiri áhugi á köttum

21 des, 2008

Sigríður Heiðberg með einn af vinum sínum í Kattholti.


„Þetta er átjánda starfsárið okkar og ég man ekki eftir öðru eins,“ segir Sigríður Heiðberg í Kattholti um mikinn áhuga fólks á því að taka að sér ketti Kattholts.


„Það læðist að mér grunur um að kreppan hafi áhrif á aukinn áhuga fólks á köttum,“ segir Sigríður. Hún segir gæludýr hafa góð áhrif á fólk. „Maður hefur fundið fyrir miklum hraða í þjóðfélaginu á undanförnum árum en það er enginn vafi að dýrin gera mikið fyrir þann sem líður illa,“ segir Sigríður.


Hún segir aldrei færri en 70 ketti dvelja í Kattholti svo nóg sé til fyrir þá sem vanti ketti. Öll dýr, sem aldur hafi til, séu tekin úr sambandi, hreinsuð og örmerkt en það sé meðal annars gert til að halda nákvæma skrá yfir ketti sem koma í Kattholt.


„Fólk er búið að vera út og suður en ætli það sé ekki einhver lending núna. Það er farið að hægja á og fólk fer að horfa á það sem skiptir máli,“ segir Sigríður.


Mynd: Visir.is  | Greint frá í Fréttablaðinu