Eigendur
geta aldrei verið öryggir um að kettir þeirra týnist ekki einhvern tímann á
lífsleið þeirra. Innikettir geta komist
út og týnst, með því að lauma sér út um dyr eða falla út um glugga fyrir
slysni. Útikettir eru í hættu á að
týnast, þeir geta einnig lent í ýmsum óhöppum og slysum. Þegar köttur týnist þá
skiptir miklu máli að hann sé vel merktur, örmerktur og með ól. Við vitum að
ólarnar geti hæglega týnst en ef það gerist þá kemur örmerkingin til góða.
Þetta hefur bjargað ófáum kettinum.
Þegar við
tökum að okkur kött þá gerumst við ábyrg fyrir honum og því fylgir
skuldbinding. Ábyrgð okkar er gagnvart kettinum og samfélaginu. Kettinum er
betur borgið merktum, líkur á að hann komist heim ef eitthvað kemur fyrir margfaldast.
Á hverju ári finnst fjöldi ómerktra
katta. Margir komast ekki heim til sín vegna þess að ekki er vitað hver á þá og
ekki er spurt eftir köttunum, aðrir komast heim því eigandinn leitar að þeim og
sumir eru svo óheppnir að eigandinn kærir sig ekki um að fá þá aftur. Eigandi
ber ábyrgð á sínum ketti. Það gengur ekki að skorast undan ábyrgðinni á
einhverjum tímapunkti. Dapurlegt er þegar eigendur yfirgefa dýr sín af ásettu
ráði.
Í byrjun
síðasta árs tóku gildi ný lög um velferð dýra. Kattaeigendum er nú skylt að
einstaklingsmerkja kettina sína (22. gr. laga um velferð dýra). Kettir sem eru
ekki merktir í samræmi við 22. gr. og ganga lausir eru skilgreindir sem
hálfvilltir.
Eftir tvo
sólarhringa frá handsömun er sveitarfélagi heimilt að ráðstafa hálfvilltu dýri
til nýs eiganda, selja það gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta (24.
gr.)“.
Með þessum
lögum er sett aukin ábyrgð á kattaeigendur. Þeir bera ábyrgð á að kettir þeirra
séu vandlega merktir ef eitthvað kemur upp á. Eigendur ómerktra katta taka til
dæmis þá áhættu að fá dagsektir ef þeir vitja kattanna ekki fljótlega hjá
dýraeftirliti eða í Kattholti. Tekið skal fram að Kattholt svæfir ekki ómerkta ketti
eftir tvo daga.
Að lokum má minna
á að þegar örmerktur köttur eignast annað heimili þá þarf fyrri eigandi að skrá
köttinn á nýjan eiganda. Þetta er nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir erfiðleika
seinna meir.