Lísa Björk Hannesdóttir er 11 ára stúlka sem á hund, en þegar hún frétti af fjárhagsvanda Kattholts og hversu margir óskilakettir dvelja þar alla jafna ákvað hún að grípa til sinna ráða.


Hún hringdi í ömmu sína og afa og bað þau að hjálpa sér að útvega muni til að selja á hlutaveltu. Þar sem amma hennar og afi búa í stórri blokk fyrir eldri borgara, vissi Lísa Björk sem var, að amma hennar þekkir alla í blokkinni, enda einstaklega opin og kát kona.


Amman hringdi í alla sem hún þekkti og hver og einn fór í geymsluna sína og tíndi til muni sem þeir voru ekki að nota. Mánudaginn 18. júlí sat Lísa Björk því fyrir framan Melabúðina frá klukkan hálf þrjú til hálf átta og seldi fallega muni fyrir rúmar 14.000 krónur og miðvikudaginn þann  20. sat hún þar aftur í tvo tíma og seldi fyrir fjögurþúsund krónur.


Ágóðann, 18.222 krónur,  afhenti Lísa Björk formanni Kattavinafélagsins með óskum um að vel gangi í Kattholti og Kattavinafélaginu. Einstakt framtak hjá svona ungri stúlku og alveg til fyrirmyndar.


Kattavinafélagið og Kattholt þakka Lísu Björk hjartanlega fyrir rausnarlega gjöf.