Frá níu ára aldri og næstu átján ár á eftir, átti ég kött, yndislegan, gáfaðan og skemmtilegan kött. Skiljanlega lofaði ég mér því, þegar hún dó, að ég tæki aldrei aftur að mér kött því söknuðurinn nísti gegnum merg og bein.
Þess vegna lokaði ég eyrunum fyrir því þegar mamma mín, haustið 2011 benti mér á yndislegan kött sem var búinn að búa í Kattholti í níu mánuði og var kominn tími á að svæfa.
Bjartur er blíður, en lítill í sér og það þarf lítið til að hann fyllist skelfingu
Hann hafði fundist í kartöflupoka í gjótu í Heiðmörk um jólaleytið 2010 ásamt átta systkinum sínum. Ein systirin fékk heimili fljótlega, en öll hin systkinin þurfti að svæfa nema einn bróður, þar sem þau voru svo illa farin eftir þessa skelfilegu meðferð.. Í Kattholti fengu þeir nöfnin Keli og Sokki en þegar Keli fékk heimili sagði mamma mín mér sögu þeirra. Mér fannst óendanlega sorglegt að nú væri einn bróðir eftir í Kattholti sem enginn hefði viljað taka að sér og að lífið hans yrði ekki meira en þetta, þessi hræðilega lífsreynsla að lenda í höndunum á svona illa innrættu fólki, og að vera í athvarfi. Að eiga aldrei heimili. Ég reyndi að halda mig við þá ákvörðun að taka ekki að mér dýr því ég gæti ekki misst þau, en eftir að ég fékk senda mynd af honum þá brustu allar varnir.
Sokki veit sko alveg að hann er leiðtoginn í hópnum. Það var búið að segja honum að hann væri búinn að fá heimili, og hann vissi að þeir Sprettur yrðu ekki aðskildiir. Hann sýnir vald sitt svona af og til, en gleymir sér svo og verður dreyminn á svipinn að horfa á fólkið á Laugaveginum.
Hann var svo fyndinn á myndinni, alveg eins og kóngur. Alveg eins og hann væri að segja „sjáðu mig, ég er svo flottur, þú yrðir ekkert smá heppin að fá að búa með mér“. Þá tók næsta áhyggjuefni við, verð ég með móral allan vinnudaginn vitandi af Sokka einum heima að bíða eftir mér? Ég spurði starfsmann Kattholts hvort hún vissi hvort Sokki ætti besta vin. Jú, sagði hún, það er einn hér sem leikur sér alltaf við Sokka í leiktímanum og svo leggja þeir sig saman. Þetta fannst mér æðislegt og sagðist koma og taka þá báða næsta dag.
Næsta dag þegar ég mætti í Kattholt tók á móti mér afskaplega elskulegur og hamingjusamur fress. Hann kom hlaupandi á móti mér eins og hann væri að segja „nei ertu komin, hææææ“ og malaði og nuddaði sér upp við mig. Ég spurði starfsmanninn: „Er þetta besti vinurinn?“ (mundi ekki nógu vel eftir myndinni). „Nei“ sagði hún, „þetta er bara annar fress“. Ég fékk sting í hjartað og hugsaði „er ég að fara heim með hina tvo og segja við þennan, nei sorry, ég get ekki tekið fleiri, en takk fyrir sýndan áhuga“. Nei, ekki séns. Hver er munurinn á tveimur eða þremur? Hversu mikilli ást og hamingju getur þriðji kisinn bætt við? Óendanlegri er svarið.
Sprettur tók á rás um íbúðina, um leið og hann kom, flaug í loftinu milli herbergja og því tók ekki langan tíma a finna nafn á hann. Þvílíkur sprettur!
Svo manneskjan sem ætlaði ekki að taka neinn kött átti allt í einu þrjá. Sokki var sá eini sem var kominn með nafn en hinir tveir voru nafnlausir og ég stúderaði þá vel til að gefa þeim nöfn sem voru við hæfi. ,,Besti vinurinn“ var hressasti og jákvæðasti köttur í heimi og þaut herbergja á milli í íbúðinni minni þegar þangað var komið eins og hann væri að segja „nei, vá, er nýtt herbergi hér, vá hvað það er stórt!“. Nokkrum mínútum síðar fékk hann nafnið Sprettur og hann stendur vel undir nafni. Venjulega sé ég hann ekki hlaupa. Hann er á einum stað eina sekúnduna og á öðrum þá næstu og er þá annars staðar í íbúðinni.
,,Þriðji kötturinn“ er hvítur með svargráa ,,húfu“ og stór björt augu. Hann fékk því nafnið Bjartur. Bjartur er óendanlega lítill í sér og hræddur og það þarf lítið til að skelfa líftóruna úr honum. Hann hafði sætt illri meðferð áður en hann komst í Kattholt og ég held ég vilji ekki vita hver sú meðferð var. Ég veit bara að Kattholt nærði, hlúði að og fóstraði þrjá yndislegustu stráka sem ég hef kynnst. Þeir eiga svo auðvelt með að gefa ást og blíðu og þiggja hana. Þeir eru þægir, greindir, fyndnir, skemmtilegir, rólegir og ég elska þá út af lífinu og þeir vita það. Hefði Kattholts ekki notið við hefði ég farið á mis við þessa yndislegu gleðigjafa, sem gefa manni meira á einum degi en sumir gera alla ævi.
Takk, Kattholt fyrir Sokka, Sprett og Bjart.