Fjársöfnun Herra Hippós fyrir Kattholt gengur vonum framar

8 nóv, 2012

Eins og við höfum greint frá hér á síðunni, hefur herra Hippó á Galdrasafninu á Hólmavík verið að safna fyrir Kattholt.

Þetta bréf fengum við af árangrinum fram til þessa – en söfnunin hófst í lok ágúst og verður að segjast að þetta er stórkostlegur árangur á aðeins tveimur mánuðum.  Við þökkum Sigga og Hippó innilega fyrir að lofa okkur og öðrum kattavinum að fylgjast með, en sannarlega kom þetta bréf á óvart og gladdi okkur ósegjanlega. Takk Siggi og Hippó!

,,Söfnun Hr. Hippós gengur vonum framar. Hann er þegar búinn að safna 90 þúsund krónum í reiðufé sem munu renna beint til Kattholts. Það er ekki öll nótt úti ennþá með það, því söfnunin tútnar meira út með hverjum deginum. Nokkrir góðvinir hans af kattakyni í Reykjavík og  á Hellissandi hafa tekið að sér umboðssölu á kortunum hans og það er margt að gerast. Eftir að það birtist frétt á mbl.is um uppátæki hans þá seldust kortin upp á augabragði. En nú er búið að prenta meira og hann getur haldið ótrauður áfram.
 
Honum voru að berast þau miklu gleðitíðindi í dag að Murr kattafóðursframleiðandi í Súðavík hefur ákveðið að leggja söfnuninni lið og leggja til í formi kattarmatar frá Murr andvirði helming af því sem hann nær að safna fyrir Kattholt.
 
Hann mun því verða klyfjaður góðum gjöfum til skjólstæðinga ykkar þegar hann kemur til ykkar í stutta heimsókn rétt fyrir jól.
 
Kærar kveðjur frá Hólmavík
 
Siggi og Hippó
 
Strandagaldur ses, Hólmavík.“
www.galdrasyning.is