Um Kattholt

Köttur á nýtt heimili frá Kattholti

Kisur í heimilisleit eru sýndar eftir hádegi á virkum dögum á fyrirfram bókuðum tíma. Bókun fer fram símleiðis milli kl. 9-12 á virkum dögum. 

Þegar köttur fer á heimili frá Kattholti þá greiðir nýr eigandi fyrir ófrjósemisaðgerð, ormahreinsun, örmerkingu og skráningu og 1.bólusetningu, samtals kr. 24.500-.

Kettir í heimilisleit eru auglýstir undir kisur í heimilisleit á heimasíðu.

Saga Kattholts

Við stofnun Kattavinafélagsins 1976 hófst sú starfsemi Kattavinafélagsins, að taka til geymslu heimilislausa óskilaketti, sem fundist höfðu á förnum vegi, og færðir voru heim til Svanlaugar formanns félagsins, sem veitti þeim þannig mat, umönnun og húsaskjól í sérstöku herbergi.

Ef eigandi gaf sig fram innan hæfilegs tímabils komst kötturinn til síns heima, en ella reyndi Svanlaug að koma honum á gott heimili. Ef það tókst ekki var dýralæknir fenginn til að svæfa köttinn á kostnað Kattavinafélagsins. Þar naut félagið vinsemdar Brynjólfs Sandholt dýralæknis, sem frá upphafl var ráðgjafi félagsins og veitti oft umbeðna aðstoð án greiðslu.

Fljótlega kom svo í ljós að þörf var fyrir þessa kattageymslu félagsins þegar kattaeigendur fóru í sumarfrí, eða urðu að fara á sjúkrahús vegna veikinda. Þá tók Svanlaug að sér að geyma heimilisköttinn á meðan. Þannig hófst í smáum stíl sú starfsemi, sem nú er rekin í húsi félagsins, Kattholti, að Stangarhyl 2 í Reykjavík.

Þessi heimavist var af gárungum nefnd Kattahótel, og var skopteiknaranum Sigmund að verkefni.

Kattahótel í Reykjavík - Sigmund

Þessi teikning sigmunds „Kattahótel í Reykjavík” birtist í Morgunblaðinu 26. mars 1977, en þá hafði Svanlaug Löve formaður Kattavinafélags Íslands nýlega opnað vistheimili fyrir ketti á heimili sínu að Reynimel 86. Þar tók hún bæði á móti óskilaköttum, sem fundist höfðu á vergangi, og líka heimilisköttum um tíma, ef eigendur voru að heiman í sumarfríi eða á sjúkrahúsi.

Hótel Kattholt

Frá opnun Kattholts hefur verið starfrækt gæsla á heimilisköttum sem þurfa að dvelja þar í lengri eða skemmri tíma á meðan eigendurnir eru að heiman. Starfsmenn leggja mikið á sig til þess að sinna þörfum hvers kattar svo þeim líði sem best. Hægt er að fylgjast með hótelgestum á Instagram síðu okkar, Kattholtskisur og þar er hægt að vera í samskiptum við starfsmenn á meðan á gistingu kattarins stendur.

Allir kettir þurfa að vera grunnbólusettir, en það eru tvær bólusetningar með 3-4 vikna millibili og svo árlegar bólusetningar eftir það, eða þar til dýralæknir metur að hægt sé að bólusetja á 2-3 ára fresti miðað við smitmat hvers kattar fyrir sig. Kettir þurfa einnig að vera með gilda ormahreinsun (>12M), örmerktir og geldir/teknir úr sambandi.

Heilsufarsbók eða vottorð frá dýralækni þarf að fylgja með sem staðfestir að kötturinn hafi verið bólusettur og ormahreinsaður. Nauðsynlegt er að kettinum fylgi allar upplýsingar um mataræði og heilsufar. Vinsamlegast komið með fæði kattarins meðferðis.

Kötturinn fær rúmgott búr og þar hefur hann allt sem hann þarfnast. Honum gefst kostur á að fara úr búri ef hann vill. Kettir eru með ólíkar þarfir og reynt er eftir bestu getu að koma til móts við þær.

Köttur sem kemur í fyrsta skipti getur dvalið 7-10 daga á hótelinu, en í allt að 30 daga hafi hann komið áður í gæslu.

Gistingu er hægt að panta á heimasíðunni okkar, https://kattholt.is/hotel-kattholt-boka/  og/eða með því að senda tölvupóst á kattholt@kattholt.is. Við minnum á að panta tímanlega sérstaklega um páska, sumar og jól, til að vera örugg um pláss.

Dagvistunargjald fyrir einn kött er 1.900 kr. Ef tvær kisur (t.d. af sama heimili) koma saman er verðið 2.900 kr og fyrir þrjár kisur 3.900 kr. (Vinsamlega hafið samband ef fleiri kisur af sama heimili þurfa gæslu).

2.000 kr aukagjald leggst á heildarupphæð ef kisur eru sóttar eða þeim skilað í pössun á laugardögum. Einnig leggst 2.000 kr sekt við heildarupphæð ef kisi er sóttur seinna en áætlað var.

Kattahald í Reykjavík

Þann 23. ágúst 2005 tók gildi endurskoðuð samþykkt um kattahald í Reykjavík. Markmiðið með endurskoðun samþykktarinnar var að skapa meiri sátt um kattahald í Reykjavík og fækka óskilaköttum.

Samþykktina og bækling má nálgast með því að smella á eftirfarandi:

Pdf Kattahald í Reykjavík 2005

Pdf Kisubæklingur

Dýraþjónusta Reykjavíkur (DÝR) heldur utan um málefni gæludýra og annarra dýra sem lent hafa í hremmingum í borginni. DÝR annast umsýslu vegna skráningar dýra, fræðslu og upplýsingagjöf, föngun og vistun dýra í vanskilum og samskipti við aðrar stofnanir, dýraeigendur og hagsmunasamtök þeirra.

Kattavinafélag Íslands

Starf Kattavinafélagsins í þágu samfélagsins

Grein skrifuð á upphafsárum starfsemi Kattholts

Með tilkomu Kattholts hefur aðstaðan fyrir óskilaketti batnað verulega hér á höfuðborgarsvæðinu. Kattavinafélagið hefur unnið mjög gott starf og almenningur sem og lögregla, dýraeftirlitsmenn og fleiri hafa getað leitað á náðir félagsins með ketti sem það finnur á vergangi. Kattavinafélagið hefur einnig haldið skrár yfir heimilisketti sem fólk hefur týnt eða fundið og hefur með Þessum hætti aðstoðað margan köttinn við að rata heim til sín.

Kattavinafélag Íslands var stofnað 28. febrúar 1976. Aðalhvatamaður að stofnun þess var Svanlaug Löve. Tilgangur Kattavinafélagsins er að vinna að betri meðferð katta og standa vörð um að kettir njóti þeirrar lögverndar sem gildandi dýraverndunarlög mæla fyrir um, og stuðla að því að allir kettir eigi sér húsaskjól, mat og gott atlæti.

Hús Kattavinafélags Íslands, Kattholt, opnaði í júlí 1991 og var þá suðaustur hluti hússins tekinn í notkun undir starfsemi félagsins. Þessu húsnæði var skipt í deildir fyrir óskilaketti, gæsluketti og skrifstofu. Reykjavikurborg veitti töluverðan styrk til þessara framkvæmda, en jafnframt lögðu meðlimir félagsins fram mikla sjálfboðavinnu við smíðar, pípulagnir, málingarvinnu og fleira. Við opnunina fluttust óskilakettir af höfuðborgasvæðinu frá Dýraspítalanum í Víðidal í Kattholt, þar sem meginmarkmið starfseminnar var helgað þeim. Þar með hófst mikið starf við umönnun þeirra, leit að réttum eigendum eða að öðrum kosti að finna nýtt heimili fyrir þessa ferfættu vini. Ennfremur hefur félagið unnið hörðum höndum við að koma í veg fyrir að kettir týnist. Þetta hefur verið gert með því að hvetja dýraeigendur til að merkja þá greinilega.

Þetta starf, sem er að miklu leyti unnið í sjálfboðavinnu er mjög mikilvægt í þéttbýli en er því miður oft vanmetið af yfirvöldum og almenningi. Ef þessir kettir hefðu í engin hús að venda, sæum við fljótt verulega fjólgun á litlum samfélögum villikatta hér og þar í borginni. Kettir sem lifa villtir geta verið smitaðir af spóluormum, bogfrymli, eyrnamaurum, augnsýkingum og kattafári svo eitthvað sé nefnt. Þessir kettir geta smitað heimilisketti og viðhalda þeir smitinu í umhverfinu. Auk þess þurfa þessir kettir að veiða sér fugla og mýs til matar og fara oft í rusl í íbúðarhverfum. Af þessu hlýst verulegt ónæði. Þegar kólna fer í veðri verða vegalausir kettir oft svangir, kaldir og illa til reika. Dánartíðni verður mjög há um vetur, sérstaklega hjá kettlingum. Vegna dýraverndarsjónarmiða er ekki annað hægt en að reyna að koma í veg fyrir að slík samfélög fái að þróast og stækka. Það er því nauðsynlegt að athvarf fyrir óskilaketti sé fyrir hendi.

Í Kattholti fá kettirnir góða aðhlynningu. Þeir eru geymdir í rúmgóðum búrum og fóðrun og hreinlæti eru til fyrirmyndar. Í Kattholt koma kettir frá öllu höfuðborgarsvæðinu, sem bæði lögreglan og almenningur koma með. Þar sem margir kettir eru samankomnir í einu húsnæði hafa sóttvarnir alltaf verið efst í hugum manna. Það varð því fljótlega ljóst að aðskilja þurfti óskilakettina frá gæsluköttunum. Það var svo í júlí 1992 að vesturhluti bakhúss var tekið í notkun fyrir óskilaketti. Þótti þetta mikil framför auk þess sem hægt var að auka gæsluna, sem yfir sumartímann er einhver helsta fjáröflun félagsins.

Sumarið 1993 gerðist það sem menn höfðu mest óttast. Það kom upp smitsjúkdómur meðal óskilakattanna, sem leiddi til þess að aflífa þurfti hluta þeirra. Viðbrögð félagsins við þessum skelfilaga atburði voru skjót, ákveðin, fagleg og til fyririmyndar. Þess var strax farið á leit við félagsmenn að styrkja félagið í að hólfa óskilakattadeildina í 5 aðskilin herbergi og koma upp góðu loftræstikerfi. Með þessu móti er hægt að takmarka útbreiðslu smits og aðskilja heilbrigða einstaklinga frá sjúkum. Átak þetta færði félagið á fjórða hundrað þúsund. Þrátt fyrir þröngan fjárhag, var hægt með hjálp góðra manna að koma upp þeirri góðu aðstöðu sem notuð er í dag.

Á undanförnum árum hefur starfsemi Kattavinafélags Íslands fyrst og fremst miðast við Reykjavík og nágrannabyggðarlög. Af þessum sveitarfélögum hefur þó Reykjavíkurborg ein veitt framlag til starfseminnar árlega. Allri ósk til annarra sveitarfélaga um framlag til rekstursins á undanfórnum árum, hefur því miður verið synjað. Þó er í lögum að sveitarfélögum, hverju fyrir sig, beri skylda til að halda óskiladýrum í skefjum. Aðferð sú sem Kattavinafélagið hefur valið sér er tvímælalaust sú mannúðlegasta og besta sem völ er á. Þar eru hagir og þarfir dýranna í hávegum hafðir.

Það væri óskandi að í hinni allra nánustu framtíð sæju önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og víðar sér fært að koma inn í þetta starf af fullum krafti, svo stíga megi stór og farsæl skref á þessu sviði inn í 21. öldina.

Þorvaldur H. Þórðarson, dýralæknir og
Katrín Harðardóttir, dýralæknir

Stjórn Kattavinafélags Íslands

Aðalstjórn:

  • Birna Valborgar Baldursdóttir, formaður
  • Ólöf Loftsdóttir, varaformaður
  • Heiðrún Hlín Guðlaugsdóttir, gjaldkeri
  • Anna Margrét Áslaugardóttir, ritari
  • Inam Rakel Yasin, meðstjórnandi

Varamenn:

  • Halldóra Hrund Guðmundsdóttir
  • Ingibergur Sigurðsson
Lög Kattavinafélagsins

1. Heiti.
Heiti félagsins er “Kattavinafélag Íslands”. Skammstafað KÍS.

2. Tilgangur.
Tilgangur félagsins er:

a) að vinna að betri meðferð katta, standa vörð um að allir kettir njóti þeirrar lögverndar, sem gildandi dýraverndunarlög mæla fyrir um og stuðla að því að allir kettir eigi sér húsaskjól, mat og gott atlæti.

b) að reka kattaathvarfið Kattholt.

c) að beita sér fyrir fræðslu og upplýsingamiðlun um góða meðferð katta.

3. Félagar.
Félagar geta allir orðið sem náð hafa 18 ára aldri hvar sem þeir eru búsettir á landinu, enda hafi þeir áhuga á dýravernd og séu kattavinir. Fullgildir félagsmenn teljast skráðir félagar sem greitt hafa árlegt félagsgjald.

4. Aðalfundur.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 31. maí ár hvert. Í stjórn skulu vera 5 menn, formaður og 4 aðalmenn. Á hverjum aðalfundi skulu kosnir 2 aðalmenn til tveggja ára og formaður til eins árs í senn. Bæði formann og aðalmenn má endurkjósa. Auk þess skal á hverjum aðalfundi kjósa 2 varamenn í stjórn til eins árs í senn. Þá má einnig endurkjósa. Ef fleiri eru í framboði til stjórnar en þeir sem kjósa skal, skal kosningin vera skrifleg. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi. Aðalfund skal boða með auglýsingu í fjölmiðli með minnst 10 daga fyrirvara.
Ný framboð til stjórnarsetu skal berast stjórn a.m.k viku fyrir boðaðan aðalfund og kynnt félagsmönnum t.d. á heimasíðu félagsins a.m.k 5 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Kjörgengi og rétt til að greiða atkvæði á aðalfundi félagsins hafa fullgildir félagsmenn, skuldlausir um áramót næst á undan aðalfundi. Stjórn skipi framkvæmda- og fjáröflunarnefnd, 3 menn til tveggja ára í senn, stjórnarmenn eða löggilta félagsmenn. Nefndin starfi í samráði við stjórn og í umboði hennar.

5. Stjórn.
Stjórnin kýs sér sjálf meðal kjörinna aðalmanna, varaformann, ritara og gjaldkera. Til að taka löglega ákvörðun á stjórnarfundi skulu minnst 5 stjórnarmeðlimir eða varamenn vera mættir. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum. Ef atkvæði standa á jöfnu ræður atkvæði formanns úrslitum.

6. Fundargerðir.
Fundargerðir aðalfunda og stjórnarfunda skulu skráðar í fundargerðabækur og skulu þær undirritaðar af stjórnarmeðlimum. Ennfremur skal fundargerð aðalfundar undirrituð af fundarritara og fundarstjóra fundarins. Fundargerð hvers aðalfundar skal lesin upp og borin undir atkvæði á næsta aðalfundi.

7. Skoðun reikninga.
Á hverjum aðalfundi er kosinn skoðunarmaður reikninga úr röðum félagsmanna. Skal hann skoða reikninga félagsins áður en gjaldkeri fær þá frá viðurkenndum fagaðila.

8. Ársreikningur.
Reikningsárið er almanaksárið. Gjaldkeri leggur fram á stjórnarfundi ársreikning félagsins, yfirfarinn af skoðunarmanni félagsins og viðurkenndum fagaðila. Reikningar félagsins eru lagðir fram á aðalfundi til samþykktar.

9. Félagsgjöld.
Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi.

10. Greiðslur úr félagssjóði og lántökur.
Greiðslur úr félagssjóði er varða daglegan og eðlilega rekstur innir gjaldkeri af hendi. Aðrar greiðslur skulu bornar undir og samþykktar af stjórn félagsins. Lántaka af hálfu félagsins er gjaldkera óheimil nema með samþykki stjórnar.

11. Slit á félaginu og breytingar á rekstri þess.
Slit á félaginu og verulegar breytingar á rekstri þess eru því aðeins möguleg að tveir aðalfundir sem haldnir eru með eins mánaðar millibili samþykki það með 2/3 hlutum greiddra atkvæða þeirra félagsmanna sem mættir eru á báðum aðalfundunum og verið hafa í félaginu og greitt félagsgjöld árlega undanfarin 5 ár. Skal þess getið í fundarboði fyrir báða aðalfundina að þessi mál séu á dagskrá.

Ef nokkurn tímann kemur til þess að félaginu verði slitið, skulu eignir þess eingöngu notaðar í samræmi við tilgang félagsins. Síðasti aðalfundur, sem haldinn er samkvæmt framansögðu skal ákveða hvernig eignir félagsins skuli notaðar.

12. Lagabreytingar.
Til breytinga á lögum félagsins þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi þeirra félagsmanna sem verið hafa í félaginu og greitt félagsgjöld árlega í undanfarin 5 ár. Tillögur að lagabreytingum skulu auglýstar fyrir aðalfund.