Í september 2015 björguðu dýravinir vergangsketti í Kattholt. Starfsfólki í Kattholti tókst að hafa upp á eiganda þar sem kisi var bæði ör- og eyrnamerktur. Í ljós kom að kötturinn Snúður hafði týnst fyrir sjö árum, þá tveggja ára! Hann fannst skammt frá heimili sínu og enginn veit nákvæmlega hvar hann hefur haldið sig síðastliðin sjö ár. Það voru miklir fagnaðarfundir þegar Snúður var sóttur af eigendum sínum. Snúður hefur aðlagast vel og er ánægður með að vera kominn heim.
Kveðja frá „ömmu“ Snúðs:
Snúður rataði heim eftir 7 ára fjarveru, þökk sé ykkar góða og óeigingjarna starfi. Við erum enn að furða okkur á að hann skyldi allan þennan tíma vera í næsta nágrenni við okkur, það er ekki langt á milli Barmahlíðar og Skaftahlíðar þar sem hann var búinn að vera á vergangi. Þar sem dóttir mín og fjölskylda eru með hund sem Snúður er dauðhræddur við varð úr að við tókum hann að okkur, afinn og amman þannig að Snúður býr einni hæð ofar en þar sem hann ólst upp sem kettlingur. Snúður er var um sig gagnvart ókunnugum en mjög ljúfur og kelinn við fjölskylduna. Hann sækir ekki mikið í að fara út en þegar það gerist er hann fljótur að koma sé kallað á hann. Og það þarf ekki að taka það fram að Snúður er okkur öllum mikill gleðigjafi. Enn og aftur kærar þakkir og megi ykkur í Kattholti ganga allt í haginn á nýju ári.