Í vikunni komst læðan Smóka heim til sín eftir að hafa verið týnd í rúm tvö ár. Íbúi í Reykjavík óskaði eftir aðstoð Reykjavíkurborgar til að ná kisu sem hann taldi vera á vergangi og náði ekki sjálfur. Kisan kom í Kattholt, þar sem hún var skönnuð og kom í ljós að hún var örmerkt. Haft var samband við eiganda en hann hafði auglýst vel eftir kisu þegar hún týndist á sínum tíma og meðal annars var auglýsing enn á heimasíðunni okkar. Það var því ánægður eigandi sem sótti kisunasína. Smóka hefur aðlagast heimilislífinu á ný og er hæstánægð með að vera komin heim. Þetta er yndislegur endir og frábært hversu margir hjálpuðust að til að koma kisunni í skjól og aftur til eiganda síns.

Hvetjum kattaeigendur til þess að örmerkja kisurnar sínar. Örmerktar kisur eru líklegri til að komast aftur heim ef þær týnast. Ef kisur týnast þá er mikilvægt að auglýsa víða og leita vel, því það hefur sýnt sig að kisur eru þrautseigar og finnast aftur eftir langan tíma. Einnig biðjum við almenning að vera vakandi fyrir týndum köttum. Á heimasíðunni okkar, kattholt.is eru kisur sem hafa verið týndar lengi og eigendur sakna sárt.