Ég kom og ættleiddi Þorkel Smára 11. janúar síðastliðinn. Þegar hann kom fyrst heim var hann pínu skelkaður.
Þar sem ég fékk lánað búr hjá ykkur til að ferja hann heim og vildi skila því strax aftur þá dreif ég mig í það. Þegar ég kom aftur heim var Smári hinn forvitnasti. Um kvöldið var hann hæst ánægður og byrjaður að leggjast í kjöltuna mína.
Honum hefur farnast mjög vel. Hann er mesta kelidýr sem ég veit um. Þegar ég kem heim og sest niður þá kemur hann sér fyrir í fanginu á mér og byrjar að mala. Hann sefur við hliðina á mér á hverri nóttu og viðrist vera einstaklega hamingjusamur.
Á morgnana er hann mikið fyrir að leika sér og er venjan að við förum í smá eltingarleik á morgnana. Eftir það fylgist hann vel með undirbúningnum fyrir daginn.
Ég hef verið að hleypa honum út á svalirnar hjá mér, en hann hefur ekki verið mjög spenntur yfir því, enda er hann ekkert ekki hrifinn af snjó… en ég er að venja hann á ól svo að ég geti farið með hann í smá göngutúr um hverfið.
Annars vil ég þakka ykkur fyrir að halda lífinu í honum Smára. Hann er mjög ánægður og eitt mesta kelidýr sem fyrir finnst held ég; ég hef aldrei vitað um svona kelinn kött 🙂
Sendi með eina mynd sem ég tók þegar ég kom heim, lagðist inn í rúm og var að athuga með póstinn minn og þá var hann mættur á svæðið 🙂
Með ástar þökkum
Bóel Guðlaugardóttir