Björgunarleiðangur á Akureyri

3 feb, 2012


Það var eitt kalt kvöld í byrjun þessa árs að ég og vinkona mín fórum í okkar reglulega leiðangur að gefa útigangskisunum hér á Akureyri.


Fyrsta stopp var hesthúsahverfið í Breiðholti en þar er mikið um villiketti. Frétt barst nefnilega þann 6. desember á síðasta ári að það hefði aukist að fólk hefði verið að henda kisunum sínum út þar og væri þetta orðið vandamál þar. Við, verandi miklir kisuvinir, ákváðum strax þann sama dag að fara að gefa þessum ólánsömu kisum. Margar kisur höfum við séð þar en allar hræddar við okkur og því ekki hægt að ná þeim. En þessi ferð átti eftir að breyta því. Þegar við komum á staðinn rákum við fljótlega augun í einn bröndóttan og hvítan kisa sem vildi því miður ekkert við okkur tala. Allt í einu birtist rétt hjá honum snjóhvítur kisi.


Hann virkar forvitinn og við ákveðum að taka sénsinn á að reyna að ná honum. Náð var pakka af Murr blautmat og reynt að gabba kisa sem tókst fljótlega. Hann var ekki alveg viss fyrst en hungrið hafði yfirhöndina. Meðan hann var að borða læddist vinkona mín aftan að honum og náði honum. Þegar í bílinn var komið var eins og kisi vissi að nú yrði allt í lagi. Hann lagðist bara niður og var hinn rólegasti. Þegar heim var komið tókum við eftir að hann var með mikið naflaslit og var auðvitað ógeltur. Daginn eftir var brunað með hann upp á dýraspítala þar sem hann var skoðaður og athugað með örmerki sem var að auðvitað ekkert.


Tveimur dögum síðar fór kisi í geldingu og naflaslitið lagað. Hann fékk nafnið Snæfinnur eftir yndislegum kisa sem ég kynntist á Kattholti. Það er okkur alveg óskiljanlegt hvernig fólk getur hent kisunum sínum út á Guð og gaddinn. Snæfinnur er í dag mjög hamingjusamur kisi þrátt fyrir allt sem hann hefur lent í. Við höfum komist að því að hann er alveg heyrnarlaus og lætur sér fátt um finnast þó að hinir kettirnir okkar skammi hann stundum 🙂


Læt fylgja með mynd af honum þegar hann var nýkominn til okkar og lyktaði alveg eins og hross!


Kveðja Ragga