Við hjá Kattavinafélaginu, starfsfólkið og kisurnar í Kattholti, þakka af öllu hjarta frábærar viðtökur við jólabasarnum á laugardag.
Basargestir í Stangarhylnum hafa aldrei verið fleiri og fyrir utan þennan stórkostlega stuðning við starfið í Kattholti, þökkum við ykkur einstaka þolinmæði, því biðin á kassa vildi verða ansi löng.
Öllum þeim sem lögðu okkur lið með að gefa hluti og baka gómsætt bakkelsi, þökkum við alveg sérstaklega. Ykkar frábæra framlag hjálpaði ekki hvað… síst til að gera basarinn eins glæsilega og raun bar vitni.
Það komu líka inn margar umsóknir um kisur á ný heimili og er það ekki síður gleðiefni.
Undanfarnar vikur hafa fjölmargar kisur farið frá okkur til nýrra og góðra eigenda, sem er jú tilgangurinn með að reka athvarf eins og Kattholt.
Velvilji ykkar leynir sér ekki og kisurnar í Kattholti munu sannarlega eiga gleðileg jól.
Kæru vinir, ykkar hlýhugur fleytir okkur langt í starfinu. Basarinn verður opinn kl 14-16 næstu daga.