Sælar allar í Kattholti,
Mér er sagt að ég sé ný tegund sem kallast Felis-retriever-domesticus.
Mér finnst nú allt of mikið úr því gert þó ég kunni að leika mér eins og hann Krummi (Border-Collie) bróðir minn, maður lærir nú það sem fyrir manni er haft. Svo er gráa tuskurottan mín alveg fyrirtaks leikfang til að sækja.
Ég er loksins búinn að læra að vera úti án þess að hlaupa út í veður og vind enda verð ég eins árs síðar í mánuðinum!
Ég týndist í 4 klukkutíma í vetur í slyddu og kulda og Krummi bróðir var svo vænn að hjálpa til við að finna mig þar sem ég kúrði kaldur og skjálfandi í horni einhverrar girðingar í næstu götu og ekki sást í mig en ég rataði ekki heim.
Krummi þefaði mig uppi, sem betur fer og ég skalf á sænginni hennar mömmu með hitapoka restina af deginum.
Eftir þetta var ég settur í beisli og band ef ég fór út. Mér fannst það nú hálf skítt en það vandist. Þá fóru þau að kalla mig „Vefarann mikla“ stundum var ég meira að segja frá Kasmír.
Það var víst eitthvað út af því hvað ég var laginn við að vefja bandinu margsinnis fram og aftur utanum alla mögulega og ómögulega hluti. Þau höfðu nóg fyrir stafni með að losa mig úr ýmsum vanda.
Mömmu fannst þó verst þegar ég fór að taka upp rósina hennar oft á dag. En það var enginn vandi bara að labba í kring um hana nokkrum sinnum í bandinu og toga svo vel og vandleg og þar með var hún laus. Stundum dró ég hana meira að segja hálfa leiðina inn með mér 🙂 En þetta vakti einhvernveginn aldrei neina lukku.
Ég er búin að eignast vin í næsta húsi við leikum okkur í eltingaleik, hann flýr og ég elti. Mjög skemmtilegt.
Mér er sagt að Krummi hafi svo miklar áhyggjur af mér þegar ég er úti að hann geti ekki á heilum sér tekið. Hleypur á milli glugga og fylgist með hvert ég fer og ef honum er sleppt út á kemur hann og smalar mér fram og aftur. Þeir eru svona þessir fjárhundar, kemst bara eitt að hjá þeim.
Kærar kveðjur,
Spindill