Sæl Sigríður og aðrir í Kattholti

14 nóv, 2005


Ég þarf að segja ykkur ótrúlegar fréttir, svo gleðilegar að hér eru allir búnir að vera hálfskælandi um stund. Þetta er svona saga sem segir manni að maður á aldrei að missa vonina heldur á að halda lífi í henni eins og mögulegt er. Þannig er að fyrir ca. þremur mánuðum (20. ágúst) hvarf kötturinn okkar hann Garpur hinn guli af heimilinu.


Við erum síðan búin að halda úti auglýsingu á Kattholti og auglýstum í blöðum og höfum fengið nokkrar upphringingar en aldrei hefur það reynst vera hann. Svo hætti fólk að hringja og smátt og smátt þá eiginlega var ég búin að sætta mig við að hann væri dáinn greyið en verst fannst mér að vita ekkert hvað hefði orðið um hann. Þetta ástand lagðist sérstaklega illa á andlega heilsu stelpnanna og þá sérstaklega Guðrúnar Lilju sem er með eindæmum hænd að kettinum.


Það var svolítið sárt þegar tíminn leið og hún nefndi hann sjaldnar og sjaldnar þar sem ég veit að hún var ells ekki hætt að hugsa um hann. Það eru furðuleg tengsl á milli þeirra, hún getur kallað á hann með nafni og hann kemur hlaupandi til hennar, kvöldið sem hann hvarf fór hann út um leið og fjölskyldan fór í bæinn og við vorum ekki komin upp á Vesturlandsveg þegar Guðrún Lilja var nær búin að æra okkur af áhyggjum yfir því að hann væri úti og þyrfti að komast inn sem fyrst (Garpur er útiköttur sem var vanur að vera úti kannski í 2-3 daga í senn) og daginn sem hann finnst, nokkrum klukktímum áður, þá sest hún niður og skrifar reglur um framkomu við Garpinn sinn. Er þetta bara undarleg tilviljun? Veit ekki. Nema hvað að í kvöld var hringt í mig og kötturinn var fundinn og við erum búin að fara og sækja kappann.


Það var mjög tilfinningaþrungin stund þegar Guðrún Lilja áttaði sig á því hvað ég var með undir peysunni minni og hafði sótt í ókunnugt hús. Hún sagði bara „Ha? Ó, mæ god!!!“ og fór svo að hágráta, elsku litla stelpan mín. Svo fóru allir að skæla bara í smástund, meira að segja Gummi pabbi klökknaði. Þannig að Garpur hinn guli er kominn heim og lætur eins og hann hafi aldrei farið, það fyrsta sem hann gerði var að fara í húsið sitt (sem Guðrún Lilja smíðaði handa honum í smíði) eins og ekkert væri sjálfsagðara. Og þó, hann þarf að skoða allt og fá heilmikla athygli, litli kúturinn.


Mig langar til þess að þakka ykkur kærlega fyrir að halda auglýsingunni úti svona lengi, það voru mjög margir sem hringdu í okkur vegna hennar þannig að fólk er virkilega að reyna sitt besta við að koma týndum dýrum til skila.


Með þessum pósti sendi ég ykkur tvær myndir, eina af heimasætunum Guðrúnu Lilju og Þuríði með Garpinn sinn og aðra þar sem Garpur er nýbaðaður en honum veitti ekki af góðu baði. Hann er í góðum holdum og ber sig vel fyrir utan nokkrar skrámur sem hann hefur fengið í slagsmálum en eru að gróa.


 



Kær kveðja


Garpur hinn guli, Hjördís Kvaran Einarsdóttir og fjölskylda.