Óskar skynjar dauðann.

5 feb, 2010

Óskar skynjar dauðann


Óskar skynjar dauðann


Þekktur öldrunarlæknir í Bandaríkjunum hefur skrifað bók um fimm ára kött sem býr á elliheimili og hann segir að skynji þegar vistmenn séu við dauðans dyr.


Doktor David Dosa er prófessor í öldrunarlækningum við hinn virta Brown háskóla vestan hafs, og því enginn leikmaður, en í bók sinni fer hann lofsamlegum orðum um Óskar, heimiliskött á vistheimili fyrir roskið fólk, sem flest þjáist af ellihrumleika, á Nýja Englandi.


Dosa segir köttinn afar ófélagslyndan, en þegar dauðinn fari á einhvern vistmann, oft án þess að starfsfólk átti sig á því, sé Óskar ekki í rónni fyrr en hann geti lagst upp í til hans og hjúfrað sig hjá honum.



Kötturinn vaki svo yfir þessum vistmanni uns dauðastríðið sé á enda. Dosa segir Óskari aldrei skjátlast, hann hafi þegar skynjað yfir 50 dauðsföll.


Eitt sinn hafi hann verið settur inn í stofu hjá manni sem talið var að myndi deyja þá um kvöldið. Kötturinn klóraði í hurðina þangað til honum var sleppt fram, hljóp síðan burt og linnti ekki sprettinum fyrr en hjá sjúklingi sem enginn taldi dauðvona.

Sá maður dó um kvöldið, hinn, sá sem kötturinn hljóp frá, lifði enn um nokkurt skeið.


Dosa segir óskeikulleika Óskars valda því að ættingjar öldunga fái boð um yfirvofandi dauða sjáist kötturinn stökkva upp í til einhvers vistmanns.


Prófessorinn hefur enga skýringu á feigðarnæmi Óskars,
telur helst að þefskyn hans nemi lykt af ketónum, efnasambandi sem verði til við frumudauða
.



frettir@ruv.is