Það gengur allt á móti Kristni Kristmundssyni, betur þekktum sem Kiddi vídeófluga eftir samnefndri myndbandaleigu á Egilsstöðum, í kattahaldi. Læða í hans eigu fannst dauð skammt frá verkstæði hans á Egilsstöðum en áður hafa tveir aðrir kettir úr hans eigu fundist drepnir.
Tveir kettir úr eigi Kristins, læða og kettlingur, týndust fyrir um tíu dögum. Skömmu síðar fannst læðan dauð nokkur hundruð metra frá verkstæði Kristins, þar sem kettirnir voru geymdir.
Frændi minn fann eldri kisuna dauða á plani skammt frá verkstæðinu. Þar hafði verið reynt að henda henni í skurð en ekki tekist að henda henni alla leið í skurðinn. Kisan var alblóðug og ég hélt að hún hefði verið skotin, sagði Kristinn í samtali við Agl.is.
Kötturinn hafði ekki verið skotinn en við skoðun hjá dýralækni kom í ljós að hann hafði verið drepinn með oddvopni sem rekið hafði verið í höfuð hans.
Árið 2004 var skotinn köttur sem Kristinn átti. Hann kærði nágranna sinn fyrir kattardrápið. Málinu var vísað vegna vanreifunar en nágranninn var sektaður fyrir að ógna fólki með að skjóta að ketti út um svefnherbergisgluggann auk þess sem riffillinn var gerður upptækur.
Þremur árum síðar var annar köttur, sem Kristinn átti, drepinn með eitri. Engin tengsl hafa fundist milli málanna. Kristinn kærði málið til lögreglu en það hefur ekki verið upplýst.
Ég hef nú allar mínar kisur alltaf lokaðar inni og hleypi þeim bara út undir bert loft stund og stund undir eftirliti vegna þess að ég veit aldrei hvar raðmorðinginn er.