Kæri viðtakandi,
Hér að neðan eru upplýsingar um næsta fræðslufund Matvælastofnunar sem þið hafið e.t.v. áhuga á. Vinsamlega áframsendið til áhugasamra.
Öryggi og heilbrigði innfluttra matvæla og dýra
Matvælastofnun (MAST) heldur fræðslufund um innflutningseftirlit á matvælum og lifandi dýrum þriðjudaginn 31. mars 2009 kl. 15:00-16:00. Á fundinum verður fjallað um innflutning á matvælum og lifandi dýrum til Íslands, stöðuna í dag og væntanlegar breytingar við innleiðingu nýrrar matvælalöggjafar.
Vöktun innflutningseftirlits er að fylgjast með öllum sendingum af matvælum af dýrauppruna sem koma til landsins og að tryggja að þau matvæli sem flutt eru inn standist kröfur gildandi reglugerða. Með tilkomu nýrrar matvælalöggjafar verða gerðar breytingar á innflutnings- og landamæraeftirliti. Innflutningur á lifandi dýrum er töluverður þar sem fyrirbyggja þarf að smitefni berist í dýr eða menn.
Auk krafna um heilbrigði hefur innflutningseftirlit jafnframt verið hert með tilliti til annarra þátta, s.s. strangari kröfur um skapgerðarmat fyrir innflutning á hundum. Umfjöllun um melamín í kínverskum matvælum, díoxín í írsku svínakjöti og salmonellu í hnetusmjöri hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið og er þörfin á skilvirku innflutningseftirliti brýn til að standa vörð um smitvarnir og lýðheilsu.
Á fræðslufundinum verður fjallað um fyrirkomulag innflutningseftirlits hér á landi, m.a. eftirlit með innfluttum matvælum, evrópska viðvörunarkerfið RASFF, innflutningur sjávarafurða og landamæraeftirlit, ný matvælalöggjöf og eftirlit með innflutningi á lifandi dýrum.
Fyrirlesarar:
Þorvaldur Þórðason, framkvæmdarstjóri Inn- og útflutningsskrifstofu Matvælastofnunar
Herdís M. Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Matvælastofnun
Margrét Bragadóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun
Björn Steinbjörnsson, sérgreinadýralæknir inn- og útflutnings hjá Matvælastofnun
Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði MAST að norðanverðu (Grafarvogsmegin). Allir velkomnir!
Sjá www.mast.is
Með kveðju, / Best regards,
Hjalti Andrason
Fræðslustjóri / Head of Information and Communication
Fræðslu- og upplýsingamál / Information and Communication