Nýr formaður Kattavinafélags Íslands

27 apr, 2011


Á aðalfundi Kattavinafélags Íslands þann 14. apríl var kjörinn nýr formaður, Anna Kristine Magnúsdóttir.


Eftir fráfall Sigríðar Heiðberg hafði Anna Þorgrímsdóttir gegnt stöðu formanns og eru henni þökkuð hennar góðu störf í því embætti.  Anna mun sitja áfram í stjórn Kattavinafélags Íslands.
 
Á fundinum var Sigríðar Heiðberg minnst með miklum þökkum fyrir hennar ómetanlega framlag til bættra lífskjara katta og ótrúleg þrautseigja hennar og dugnaður gleymist aldrei. Sigríður hafði óbilandi trú á að bæta mætti réttarstöðu dýra og það er von stjórnar Kattavinafélagins að sá draumur hennar muni endanlega rætast með nýjum dýraverndunarlögum sem lögð verða fyrir Alþingi í haust.


Anna Kristine hefur starfað við fjölmiðla í 34 ár. Hún er mikil kattakona og átti kisuna Stjörnu Mai í 19 ár. Núna starfar Anna Kristine sem ráðskona hjá hefðarkettinum Goða, sem er persneskur eðalköttur, sem telur veg sinn hafa vaxið mikið eftir að ráðskona hans hóf að berjast fyrir áframhaldandi bættum kjörum katta og aukinni dýravernd. Hann hefur lofað að Anna Kristine megi sitja við tölvuna, tala í símann og sækja fundi, svo fremi sem það tengist kisum.


Ljósmynd: Hari/Fréttatíminn.