Góð vísa er aldrei of
oft kveðin og því viljum við í Kattavinafélaginu minna á lykilatriði til að
kisunum líði sem best þegar flugeldum er skotið á loft. Það eru í raun þrjú
kvöld sem eru ,,verst“ fyrir kisur: Gamlárskvöld, nýárskvöld og þrettándinn.
Ein og ein kisa elskar að sitja úti í glugga og horfa á ljósadýrðina á himni,
en algengara er að kettir séu skelfingu lostnir þegar lætin byrja. Þeir leita
sér þá oft á felustað gott er að hafa fataskápinn opinn og vera búinn að
leggja þar mjúkar peysur eða teppi. – Það er í eðli dýra að hræðast hávaða, reyk og
eld og forðast ætti eftir fremsta mætti að hafa dýr laus í eða nálægt þéttbýli
á gamlárskvöld.
Lokaðir gluggar, ljós á heimilinu
Þetta er kvöldið sem
loka á dýrin inni, hafa alla glugga lokaða, gardínur dregnar fyrir og daufa
ljósbirtu á heimilinu.Þá er gott að hafa útvarp í gangi eða leika ljúfa tónlist
af geisladiskum, lágt stillt. Kettir kjósa yfirleitt að vera einir og í felum.
Hægt að fá lyktarhormón sem draga úr streitu og kvíða
Í fyrra bentum við á heimasíðu
Dýralæknamiðstöðvarinnar í Grafarholti sem enn er í góðu gildi, því þar er að
finna mjög góðar leiðbeiningar frá Sif Traustadóttur, dýralækni um hvernig búa
skuli að gæludýrum á gamlárskvöld þar sem Sif skrifar meðal annars:
.. Kettir vilja vanalega fela sig í dimmri holu og koma þaðan aftur þegar
,,hættan er yfirstaðin.. Ef þetta eru fyrstu áramótin hjá dýrinu þínu er
mikilvægt að minnka líkur á neikvæðri reynslu. Kettir eiga ekki að fara
út á gamlársdag, nýársdag eða á þrettándanum. Mikilvægt er að útbúa skot þar
sem dýrið getur leitað skjóls. Hugsið um hvert dýrið hefur leitað áður
þegar það var hrætt, algengt er að það sé inni í herbergi fyrir miðju hússins
eða þar sem einhver nákominn dýrinu sefur. Ef til vill er hægt að útbúa
skot í búri, stórum kassa eða breiða dúk yfir borð eða rúm svo þar myndist dimm
hola.Ef þú heldur að lyf geti hjálpað dýrinu þínu þarftu að tala tímanlega við
dýralækninn þinn og ræða hvaða lyf geti hjálpað.Við mælum ekki með því að dýrum séu gefin lyf á fyrstu áramótunum. Annað
sem hefur gefið mjög góða raun eru ferómón eða lyktarhormón (DAP fyrir hunda og
Feliway fyrir ketti). Þau fást án lyfseðils hjá dýralæknum og best er að
fá úðakló sem stungið er í innstungu og dreifist þá efnið um íbúðina, en
mannfólkið finnur enga lykt af þessu. Þessi efni draga úr streitu og
kvíða hjá dýrunum, en engin hætta er á aukaverkunum.
Skjótið ekki upp flugeldum í tíma og ótíma!
Við bendum kattareigendum á að hafa samband við dýralækni sinn og fá ráðleggingar vegna þeirra katta sem af fyrri reynslu má reikna með að verði hrædd um áramótin. Þá er þeim vinsamlegu tilmælum beint til almennings að skjóta ekki upp flugeldum nema á þeim dögum sem reikna má með þeim eins og á gamlársdag, nýársdag og þrettándanum og gefa dýraeigendum þar með tíma til að gera viðeigandi ráðstafanir vegna dýra sinna.
Að lokum óskar Kattavinafélag Íslands og starfsfólk Kattholts landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og megi farsæld fylgja ykkur í lífi og starfi. Við þökkum öllum þeim sem styrkt hafa starfsemi Kattholts á árinu 2012. Gjafir ykkar hafa verið ómetanlegar og komið sér einkar vel. Gæfan fylgi ykkur!