Úr Fréttablaðinu:
Slökkviliðsmaður bjargaði þremur kafnandi kettlingum.
Jónas Baldur var að taka bensín ásamt ungum syni sínum þegar hann heyrði mjálm frá ruslagámi. Hann kannaði málið og fann þrjá kettlinga nær dauða en lífi.
„Mér brá mjög mikið. Ég trúði þessu ekki alveg. Ég var með fjögurra ára strákinn minn með mér og það datt líka af honum andlitið,“ segir slökkviliðs- og sjúkraflutningamaðurinn Jónas Baldur Hallsson.
Héraðsfréttablaðið Dagskráin á Selfossi greinir frá því í dag að Jónas hafi fundið þrjá kettlinga í ruslagámi á Selfossi snemma á mánudagsmorgun.
Hann segist í samtali Fréttablaðið hafa runnið á mjálm, sem hann trúði ekki að kæmi frá fullvaxta ketti. „Mér fannst furðulegt að það væru kettlingar úti í þessu veðri,“ segir Jónas. „Ég rann á hljóðið og fann þá í gáminum.
Einn mjálmaði, en hinir voru hreyfingarlausir þangað til ég fór að nudda þá, þá kom líf í þá. Það var búið að vefja þeim inn í koddaver og setja þá í ruslapoka og binda fyrir.“
Jónas segir að þrátt fyrir að hann sé meiri hundamaður ætli hann að halda einum kettlingnum. Hinum vonast hann til að koma fyrir á góðu heimili. Kettlingarnir verða þangað til í góðu yfirlæti hjá Jónasi og fjölskyldu hans og eru meira að segja búnir að eignast mömmu.
„Systir konu minnar á læðu. Hún kom með hana í heimsókn og læðan er búin að taka þá að sér,“ segir hann. „Hún liggur hjá þeim og þrífur og sér um þá.
Hún mjólkar ekki, þannig að við sjáum um það. Hún sér svo um rest. Það er snilld að horfa á þetta.“
Kettlingarnir eru við góða heilsu að sögn Jónasar og bera þess ekki merki að hafa verið komnir hálfa leið yfir móðuna miklu.
„Þeir rífa bara kjaft og biðja um meiri mjólk,“ segir Jónas og hlær. „Þeir eru vel aldir hérna og það er bumba á þeim.“
-En eru þeir komnir með nöfn?
„Konan stakk upp á að þessi sem við ætlum að halda fái nafnið Belgur vegna þess að hann er svo gráðugur í mjólkina og fitnar svo rosalega í hvert skipti sem hann fær sér!“
Kæri Jónas. Ég vil fyrir hönd Kattavinafélags Íslands færa þér þakkir fyrir að bjarga litlu kisubörnunum. Megi blessun fylgja þér og fjölskyldu þinni.
Kær kveðja.
Sigríður Heiðberg formaður.
.
Birt með leyfi fréttablaðsins.
Myndina tók Magnús Hlynur