Minning um Rósu.

28 nóv, 2007

Ólöf Ásta fann þessa fallegu kisu 8 maí 2006.

 

Þá var kisa illa haldin svöng og köld og lasin.

 

Ólöf Ásta fór með kisu í Kattholt þar sem henni var hjálpað að ná sér.

 

 

Það þurfti að raka af henni feldinn því hann var svo skítugur og flókinn. Svo þurfti að sprauta hana með lyfjum því hún var svo lasin að hún gat ekki borðað.

 

 

Konunum í Kattholti tókst að bjarga kisu og þá ákvað Ólöf Ásta að taka hana að sér ef engin kæmi að sækja hana. Það var ekkert spurt um kisu og því bað Ólöf Ásta ömmu sína og afa að hjálpa sér að hugsa um hana með sér.

 

 

Eftir að amma og afi höfðu sagt já þá flutti kisa til þeirra. Þá ákvað Ólöf Ásta að láta hana heita Rósu og vinkona hennar Rán hjálpaði henni að velja nafnið.

 

 

 

Rósa var mjög blíð og góð kisa og þótti gott að láta klóra sér. Oftast svaf hún hjá ömmu annað hvort ofaná brjóstkassanum eða fyrir ofan höfuðið á henni.

 

 

Ömmu og afa þótti mjög vænt um kisu en auðvita þótti Ólöfu Ástu mest vænt um hana og svo líka Margréti Rósu og Ástu Halldóru frænkum hennar sem oft komu í heimsókn til Rósu þar sem hún átti heima.

 

 

Kisa var með krabbamein og því vissum við að hún ætti ekki eftir að lifa nema 1 til 2 ár eftir að Ólöf Ásta fann hana en kisu leið ekki illa fyrr er síðustu vikurnar sem hún lifði þá var hún farin  að vera lasin og þreytt. 

 

 

En hún Rósa gaf okkur sem fengum að klappa henni og elska mjög mikið. Ef allt var ekki í lagi var gott að taka Rósu í fangið og tala við hana og klappa henni því það var eins og hún væri að hlusta.

 

 

Og Rósa sagði engum frá þeim leyndarmálum sem henni var trúað fyrir hún bara malaði og malaði.

 

 

 

En nú er Rósa farin til Guðs og nú eru það aðrir sem fá að klappa henni og segja henni leyndarmál og hlusta á hana mala.

 

En seinna þegar við förum til Guðs þá hittum við kisu aftur og fáum að klappa henni og kela við hana.

 

 

 

Takk fyrir elsku Rósa mín þú varst frábær kisa og allir sem þekktu þig elskuðu þig rosalega mikið.

 

 

 

Kisa verður jarðsett í litlum kirkjugarði á Kjalarnesi þar sem við ætlum að koma saman og kveðja hana og þar getum við seinna komið og minnst Rósu og kannski talað við hana því hún hlustar á okkur þegar okkur langar til að segja eitthvað sem enginn má heyra nema hún og Guð.

 

 

 

F. h. Kattavinafélags Íslands vil ég þakka fjölskyldunni fyrir Rósu og sendi henni þessa fallegu bæn.

 

Berðu virðingu fyrir þörfum mínum og ég mun virða þig og verða sá besti vinur sem þú getur átt. Annastu mig þegar ég verð gamall, því án þín er ég hjálparvana.

 

Blessuð sé minning Rósu.

 

Sigríður Heiðberg formaður.