Margrét sendir þakkir til Kattholts.

19 jún, 2007

Sælar.

Mikið varð ég hamingjusöm í hjartanu mínu þegar ég kíkti inn á síðuna hjá ykkur í dag.
Ég sá þar kött sem ég kom með til ykkar í byrjun maí. Köttin hafði ég rekist á nálægt laugarveginum þegar ég var á rúntinum með vini mínum  og sá halta kisu hlaupa yfir vegin, ég hoppaði út úr bílnum til að sjá hvort ég gæti ekki klófest hana og hringt í eigendurnar til að láta þá vita að kisan þeirra væri draghölt að hlaupa úti.

 
En þegar ég kom nær kisu sá ég að hún var ómerkt, skítug og særð, ég tók hana upp og vonaði að hún myndi ekki ráðast á mig. En hún gerði ekki neitt, malaði ekki og hvæsti ekki.. Reyndi ekkert að komast burt, hún horfði ekki einu sinni á mig. Alveg búin að gefast upp fannst mér.

 
Ég settist með hana inn í bíl við lítin fögnuð vinar míns og fór með hana heim. Foreldrar mínir voru ekki alveg sáttir þegar ég kom með skítugan og illa lyktandi kött heim og tilkynnti þeim að hann ætlaði að gista hjá okkur yfir nóttina því það væri lokað í kattholti. Mér var hent með köttinn inn í geymslu svo að hann varð að gera sér að góðu að gista þar yfir nóttina.

 
Svo kom ég með hann til ykkar daginn eftir þar sem var vel tekið á móti honum, kíkti svo við og við á síðuna til ykkar til að tékka á honum.  Það kom mynd af honum á síðunni en svo einhverjum dögum seinna var hún horfin. Ég hugsaði þá að þið hlytuð að hafa lógað honum, enda var greyið svo illa farið að ég gat ekki ýmindað mér að hann fengi nýtt heimili þegar litlir sætir kettlingar bíða í röðum. Eða hvort að það hefði verið nokkur leið að hjálpa honum.

 
Þannig að ég hætti smám saman að kíkja og fannst leiðinlegt að hafa ekki getað gert meira fyrir hann.
En svo rakst ég áðan á bréfið frá Kristínu á síðunni ykkar og mikið eru þetta góðar fréttir. Ég vona innilega að Bellman muni hafa það gott fram í háa elli með dekurköttunum hennar Kristínar.  Kv Margrét.

 

„eitt sinn þegar hann var í sínu barningalífi, kíkti hann lengra inn í íbúðina og horfði til mín kúrandi með kisurnar mínar allt í kring, og það var von og ósk í augunum hans – bæn sem ég hirti ekki um fyrr en núna. Ég vona að hann fyrirgefi mér það og að restin af kisulífinu hans hjá mér verði gott líf.“