Allt í lagi, svipurinn er kannski frekar þunglyndislegur – en, þessi unga stúlka lætur mig þykjast vera meðvitundarlaus – af hverju ætli ég geri það?  Jú, hún gerir það sem mér þykir allra, allra best, – greiðir mér reglulega fast til að ná “dúninum” sem er ansi þéttur undirfeldur.

 

Ég er búin að fatta að hún dragnast með mig eitthvert, þar leggst ég, fæ hörkulega greiðslu og ligg í nautnavímu.
Ég er enginn smáköttur. Stelpan er hávaxin en samt næ ég næstum niður! Ég varð þriggja ára síðastliðið vor og hef það gott.

 

Konan sem ég bý hjá heldur að hún sé húsmóðir mín – sem er auðvitað mesti misskilningur – hún fær bara að búa hjá mér, aðallega af því að ég nenni ekki að veiða mér til matar (þyrði það líklega ekki, er stundum hálfhræddur við stórar flugur) og svo get ekki greitt mér sjálfur.

 

Eftir bernskuáfall mitt dvaldist ég í Kattholti, þar sem haldið var í mér lífinu og stjanað við mig. Síðar fór ég í endurhæfingu á núverandi heimili mitt. Magaveikin hrjáir mig ekki lengur og augun eru orðin heilbrigð. Lungun hafa þó sennilega gefið sig í vosbúðinni þar sem ég fannst hálfdauður, svei mér þá.

 

Ég er nefnilega með langvinna berkjubólgu (cronic broncitis eða eitthvað svoleiðis, er að ryðga svolítið í latínunni).

 

Kerlingin varð skotin í mér svo hér er ég enn.

 

Bestu kveðjur,
Leonard
kallaður Lenni. Sumir halda að ég heiti Lenin, aðrir Leoníd. En einn mig Lénharð.