Lenni litli

11 des, 2005

Þann 22.september 2003 var hringt í mig og mér sagt af litlum kettlingi sem væri að þvælast í kringum Áskirkju í Laugarásnum í Reykjavík. Ég fór á staðinn og þar lá hann litla skinnið á taupoka og hreyfðist ekki. Ég fór með hann á Dýraspítalann í Víðidal og lét dýralækni skoða hann og í ljós kom að hann. var óbrotinn.  Ég óskaði eftir fósturmóður til að sinna honum vegna þess að hann var kvefaður.  Lánið lék við litlu kisuna er kærleiksrík kona hringdi í mig og  bauð fram aðstoð sína. Eftir að Eygló fósturmóðir var búin að koma honum til heilsu var ekki aftur snúið, þráðurinn sem hafði myndast á milli þeirra skyldi ekki verða slitinn.


Í dag lifir hann góðu lífi og er mikið elskaður og hann er þakklátur fyrir lífgjöfina. Ég sendi ykkur þessa frétt núna svo nálægt blessuðu jólunum vegna þess að mér finnst saga Lenna svo falleg og minnir okkur á að til er mikið af góðu fólki sem vill sýna dýrunum okkar kærleika.



Kær kveðja Sigríður Heiðberg